Fleiri eftirlaunaþegar í
brýnni þörf en áður
FJÖLDI þeirra sem leita aðstoðar líknarfélaga fyrir jólin virðist vera nokkuð svipaður og fyrir síðustu jól, ef ekki ívið meiri, að mati þeirra sem að
aðstoðinni standa. Þörfin virðist vera hvað brýnust hjá eftirlaunaþegum og öryrkjum, en atvinnulausir eru nokkru færri en á síðustu árum.
Áslaug Arndal, fulltrúi hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, sem er í samstarfi við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Caritas á Íslandi um aðstoð fyrir jólin, telur að álíka margir leiti aðstoðar hjá þeim nú og fyrir síðustu jól, en þá voru það um 800 manns. Fyrirtæki og einstaklingar leggja til matvöru og það sem upp á vantar er keypt á góðum kjörum, að sögn Áslaugar. Þeir sem óska aðstoðar fylla út umsókn og út frá henni, fjölskyldustærð og öðrum aðstæðum er þörfin metin. Matarpökkunum er svo úthlutað síðustu dagana fyrir jól. Miðað er við að allir fái a.m.k. kjöt og kartöflur, sem grunn í eina jólasteik, auk þess sem í pökkunum er oftast nær eitthvað af ávöxtum, grænmeti, kexi o.fl.
Áslaug segir samsetningu þess hóps sem er aðstoðar þurfi hafa breyst talsvert mikið á allra síðustu árum. Fyrir þremur árum voru flestir atvinnulausir, eða u.þ.b. helmingur á móti öryrkjum og einstæðum mæðrum. Nú eru atvinnulausir tiltölulega fáir í þessum hópi en eftirlaunaþegum og öryrkjum hefur fjölgað, þannig að heildarfjöldi þeirra sem fá aðstoð er svipaður.
Hjá Mæðrastyrksnefnd nutu um 1.400 heimili aðstoðar í fyrra og að mati Unnar Jónasdóttur, formanns nefndarinnar, verða þau ekki færri í ár. Hún segir strauminn stanslausan á skrifstofu Mæðrastyrksnefndar á hverjum degi og biðraðir út á götu þegar opnað er. Sækja þarf skriflega um aðstoðina og er umfang hennar metið eftir fjölskyldustærð. Gefnir eru matarmiðar sem fólk fer með í verslanir. Auk þess úthlutar Mæðrastyrksnefnd fötum til þeirra sem á þurfa að halda.
Góðærið ekki náð til þeirra lægst launuðu
Þá er að sögn Unnar orðið mikið um að fyrirtæki og einstaklingar gefi mat, auk peninga. Hún segir greinilegt að margir eigi í erfiðleikum með að láta enda ná saman og það sé einna sárast fyrir jólin. "Atvinnuleysið bitnar ekki síst á konum, því þó að kjörin hafi batnað hjá mörgum í þjóðfélaginu þá hafa þau langminnst batnað hjá þeim sem hafa lægstu launin. Góðærið hefur ekki náð til þeirra," segir Unnur.
Hjá Hjálpræðishernum fá um 200 manns, sem um það hafa sótt, úthlutað gjafakortum fyrir matvörum og einnig er hægt að fá fatnað úr flóamarkaðsverslun Hjálpræðishersins, að sögn Miriam Óskarsdóttur flokksforingja. Þá standa Hjálpræðisherinn og Vernd í sameiningu fyrir kvöldverði fyrir þá sem ekki eiga í önnur hús að venda á aðfangadagskvöld. Auk þess sem boðið er upp á ókeypis málsverð eru gefnar gjafir, sungið og dansað í kringum jólatré.
Miriam segir að ágætlega gangi að fá mat til jólamáltíðarinnar og hingað til hafi enginn sagt nei við þeirri bón. Hún telur að heldur fleiri séu farnir að láta fé af hendi rakna til að aðstoða náungann.