Rannsókn framhaldið
berist nýjar upplýsingar
TVÖ ár eru í dag liðin frá því þrír
grímuklæddir menn rændu útibú Búnaðarbanka Íslands við Vesturgötu í Reykjavík en ekki hefur enn tekist að upplýsa málið. Rannsókn þess var hætt þegar Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður á miðju þessu ári en lögreglan í Reykjavík tekur það upp komi fram nýjar upplýsingar eða vísbendingar.
Mennirnir komu að útibúinu í stolnum bíl laust fyrir klukkan hálf ellefu. Voru þeir í bláum vinnugöllum með lambhúshettur á höfði. Þeir skipuðu starfsfólki og viðskiptavinum að leggjast á gólfið og stukku tveir þeirra yfir afgreiðsluborðið og hirtu peninga úr kössum gjaldkera. Sá þriðji beindi haglabyssu að höfði eins gjaldkerans á meðan. Síðan hlupu þeir út, skildu eftir bíl í gangi framan við bankann og fóru niður með húsinu og að Nýlendugötu. Engu skoti var hleypt af og enginn slasaðist. Lögreglan kom fljótlega á vettvang og leitaði þjófanna með aðstoð sporhunds. Ekki var gefið upp hversu miklum fjármunum þjófarnir náðu en talið var að það væru um 1,5 milljónir króna.
Undir kvöld fannst bíll við Ásvallagötu sem talið var að ræningjarnir hefðu notað en honum hafði verið stolið frá Sigluvogi en bílnum sem þeir skildu eftir við bankann hafði verið stolið í Kópavogi. Númeraplötum beggja bílanna hafði verið stolið af bílasölu á Selfossi.
Grunur um aðild tryggingasvikara
Mánuði eftir ránið í Búnaðarbankanum voru fjórir menn handteknir vegna gruns um tryggingasvik. Hófst rannsókn á þeim málum eftir að einn þeirra hafði sviðsett innbrot og svikið út bætur fyrir "stolna" búslóð. Mennirnir voru fundnir sekir um að hafa sviðsett þrjú umferðarslys og eina íkveikju í bíl, veitt sjálfum sér áverka og fengið bætur, m.a. fyrir vinnutap. Nokkrum dögum síðar kviknaði grunur hjá lögreglunni um að þrír mannanna gætu átt aðild að ráninu í Búnaðarbankanum.
Við húsleitir komu fram upplýsingar og gögn sem vöktu þessar grunsemdir og í frétt frá Rannsóknarlögreglu ríkisins sagði að fyrir lægi að þeir hefðu á síðasta ári skipulagt og undirbúið að fremja vopnað bankarán þar sem átti m.a. að nota skotvopn, stolna bíla með stolnum númeraplötum, klæðast dökkum samfestingum og hettum og komast undan eftir fyrirfram skipulögðum flóttaleiðum.
Rannsókn lögreglunnar beindist að því að upplýsa að hve miklu leyti þessi undirbúningur hefði tengst ráninu í Búnaðarbankanum. Þá var strax rannsakað hvort tengsl væru milli þessa ráns og ráns í Lækjargötu í febrúar 1995 þegar rúmum 5 milljónum króna var stolið af starfsmönnum Skeljungs. Í það skiptið höfðu ræningar einnig stolið bíl og skilið hann eftir við Ásvallagötu.
Í september 1996 voru mennirnir fjórir dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í sex mánaða til tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir tryggingasvikin.
Málinu haldið opnu
Ekki hefur tekist að upplýsa málið enn sem komið er en Búnaðarbankinn hét, nokkrum dögum eftir ránið, einni milljón króna fyrir upplýsingar sem leitt gætu til handtöku þeirra sem rændu útibúið. Þegar Rannsóknarlögregla ríkisins var formlega lögð niður með breytingum á skipan lögreglumála á miðju árinu fluttist málið til rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Þar er því haldið opnu en ekki verður aðhafst í því nema nýjar upplýsingar berist sem varpað geti á það nýju ljósi.
Morgunblaðið/Júlíus ÞRÍR sérsveitarmenn lögreglunnar fylgdu eftir manni með sporhund þegar hann rakti slóð bankaræningjanna í Vesturbænum.