Varað við barna-
göngugrindum
GÖNGUGRINDUR geta verið
hættulegar litlum börnum. Það er niðurstaða nýrrar evrópskrar rannsóknar. Ennfremur kemur þar fram að margar göngugrindur uppfylla ekki einföldustu öryggisreglur. Engir staðlar eru til um hvernig göngugrind á að vera.
Þetta kemur fram í nýju tölublaði Neytendablaðsins. Rannsóknina framkvæmdi starfsfólk International Testing í samvinnu við Evrópusamtök neytenda. Þá kannaði Neytendablaðið framboð göngugrinda í verslunum í Reykjavík, Akureyri og á Ísafirði. Ellefu tegundir fundust og ein að auki sem hægt er að kaupa eftir þýskum póstlista. Af þessum tólf tegundum sem til eru hér á landi voru fimm þeirra með í evrópsku gæðakönnuninni og hlutu þær allar falleinkunn.
Fæstar stóðust stöðugleikapróf
Að sögn Jóhannesar Gunnarssonar framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna var litið til ýmissa áhættuþátta í rannsókninni. Niðurstaðan var að í mörgum tilvikum losnuðu viðvörunarmerkingar af grindunum eða aðrir smáhlutir. "Fæstar grindurnar stóðust stöðugleikaprófun og í þremur tilvikum var hætta á að börn gætu kyrkt sig í leikfangasímasnúrum. Flestar grindurnar geta náð 810 kílómetra hraða sem er of mikill hraði fyrir börn á þessum aldri."
Þær fimm tegundir af barnagöngugrindum sem voru í könnuninni og fást hér á landi segir Jóhannes að hafi fengið falleinkunn. "Tegundirnar Brevi speedy drive, Chicco baby walker og Hauch rolla round voru óstöðugar og hætta á að börn gætu klemmt sig á aukahlutum. Peg peregro walk'n play og Quelle baby walker voru einnig óstöðugar, hætta var á að börn gætu klemmt sig og hvorki sæti né styrkleiki uppfyllti þær kröfur sem gerðar voru í könnuninni."
Þá segir Jóhannes að rannsóknir sýni að göngugrindur geti tafið fyrir hreyfigetu barna því hætt er við að þau læri aldrei að skríða ef þau byrja snemma í göngugrind.
Í samræmi við lög og reglur um öryggi vara segir Jóhannes að þurfi m.a. staðla. "Engir staðlar eru til um göngugrindur fyrir börn þar sem tekið er tillit til allra áhættuþátta. Fyrir sjö árum var skipuð evrópsk staðlanefnd vegna barnavara en enn hefur vinnu ekki verið lokið við staðalinn þannig að allir geti við unað. Þær tillögur sem liggja fyrir eru ófullnægjandi með tilliti til öryggis barna."