Orð verða ljóð
BÆKUR
Ljóð
GJÖF
eftir Eygló Jónsdóttur og Eyrúnu
Ósk Jónsdóttur. 34 bls. Hafnarfirði, 1997.
ÖLDUR
eftir Eyþór Rafn Gunnarsson. 50 bls. Útg. Pjaxi ehf. Prentun: Svartlist ehf. Garðabæ, 1997.
MÆÐGUR tvær, Eygló Jónsdóttir og Eyrún Ósk Jónsdóttir, senda frá sér ljóðabókina Gjöf. Þær víxla ljóðum sínum hvert innan um annað. Því munu þær ætlast til að litið sé á bókina sem órofa heild. Mæðgurnar yrkja um vorið og ástina og það sem á eftir fer, það er að segja vetur og söknuð. Það eru viðkvæm efni eins og annað sem tilfinningunum við kemur og fegurðinni tilheyrir. Ljóð mæðgnanna vekja ljúfar kenndir og það er gott. En þau eru hvergi stórbrotin. Sums staðar eru notuð of mörg orð, annars staðar orð sem naumlega svara til réttra blæbrigða. Hvort heldur maður yrkir um hversdagslífið eða eitthvað annað, að eigin mati háleitara, má ljóðið sjálft aldrei verða hversdagslegt. Það verður að vera meira en mælt mál skipt niður í ljóðlínur. Ljóð hlýtur ennfremur að vera eitthvað meira en yfirlýsing um hugarástand manns eigi það að rísa undir nafni. Þetta er enginn áfellisdómur yfir þeim mæðgum sérstaklega, ekki fremur en öllum fjöldanum sem fæst við ljóðagerð sem dægradvöl og er að senda frá sér smásýnishorn iðju sinnar þessi árin.
Áhugi þeirra mæðgna á ljóðlistinni leynir sér hvergi. Og það er auðvitað lofsvert út af fyrir sig. Ætli þeim takist ekki best upp þegar þær hverfa sem lengst frá eigin sjálfi en taka þess í stað að fást við myndmál ljóðsins. Hvort sem nú Vetur getur talist með betri ljóðum bókarinnar, það má vera álitamál, getur það vel hentað sem sýnishorn, en þar hefja skáldkonurnar sig upp yfir hið sjálfhverfa tilfinningalíf og bregða fyrir sig talsvert margslungnu líkingamáli:
Barn sólar
norpar tinandi
undir ísfjalli.
Fákar hrímfextir
þeysa hvíandi
yfir snjóöldur.
Um himnasali
þeytir hamremi
ísnöglum
að brjósti Jarðar.
Öldur Eyþórs Rafns er meiri bók, bæði að stærð og fjölbreytni. Eyþór Rafn er maður kennaramenntaður og má sjá þess merki í bók hans. T.d. bregður hann fyrir sig ljóðahætti, en það telst einmitt í verkahring kennarans að benda nemendum sínum á einkenni fornra bragarhátta. Eitt ljóð Eyþórs Rafns heitir slétt og fellt Orð. En sú var tíðin að skáldin veltu mjög fyrir sér þeim frumkjarna ljóðsins; ortu jafnvel um það langa bálka. Eyþór Rafn hefur dvalist í París og Suður-Frakklandi og mun vera mæltur á frönsku. Samt verður ekki séð að hann sæki margt til suðrænna skálda. Augljóst er að hann er enn leitandi, bæði hvað varðar form og innihald. Sonnettu yrkir hann sem hann nefnir Missi. Og kvæði yrkir hann sem heitir Trillan. Það er einnig með rími og ljóðstöfum. En modernisminn lætur hann ekki heldur ósnortinn.
Ljóð Eyþórs Rafns snúast mörg hver um mannlega velferð og framtíð mannkyns og sýnast þá yfirhöfuð stefna til jákvæðrar niðurstöðu. Ekki spillir það. En þeim, sem vill bæta og breyta, hættir gjarnan til að deila og predika. Reynslan sýnir að ljóðformið er jafnan brothætt þegar á það leggst þungi hugsjóna. Borgarryk er hvorki betra né verra en önnur ljóð skáldsins en sýnir mætavel hvað Eyþór Rafn er að fara:
það er undravert
hve margir laxar
synda í borginni
og finna
ekki ána sína
það er undravert
hve margir
falla fram af
bjargbrún
í leit sinni
í menguðu
andrúmslofti
það er undravert
að þær langanir
sem ættu að lifa
dofna í ryki stígsins
sem hefur
engan áfangastað
Það leiða óhapp hefur orðið við prentun þess eintaks, sem undirritaður hefur undir höndum, að hálf örk, bls. 9 16, stendur á höfði. Að öðru leyti sýnist þokkalega til útgáfunnar vandað.
Erlendur Jónsson
Eyþór Rafn Gissurarson