SJÁVARÚTVEGSFYRIRTÆKIÐ Þorbjörn hf. stendur nú fyrir útboði á nýju hlutafé á almennum markaði að nafnvirði 30 milljónir króna. Þessi bréf eru seld miðað við gengið 7,57 og nemur andvirði þeirra því um 227 milljónum. Forkaupsréttartímabilinu lauk á mánudag og höfðu þá um 17% útboðsins selst til forkaupsréttarhafa. Um 83% bréfanna fara því á almennan markað og stendur almenn sala til 16. janúar nk.
ÐÞorbjörn

tvíeflist

Forráðamenn Þorbjörns hf. kynntu stöðu félagsins á fundi með fjárfestum á föstudag hjá Íslandsbanka í tilefni af útboði á nýju hlutafé. Félagið stendur nú í stórræðum við að endurskipuleggja sinn rekstur og fjárhag í kjölfar sameiningarnnar við Bakka hf. í Bolungarvík og Hnífsdal, eins og Kristinn Briem komst að raun um.

SJÁVARÚTVEGSFYRIRTÆKIÐ Þorbjörn hf. stendur nú fyrir útboði á nýju hlutafé á almennum markaði að nafnvirði 30 milljónir króna. Þessi bréf eru seld miðað við gengið 7,57 og nemur andvirði þeirra því um 227 milljónum. Forkaupsréttartímabilinu lauk á mánudag og höfðu þá um 17% útboðsins selst til forkaupsréttarhafa. Um 83% bréfanna fara því á almennan markað og stendur almenn sala til 16. janúar nk. Verði þá einhver bréf þá óseld verður óskað eftir tilboðum og bréfin seld hæstbjóðanda, en áskilinn er réttur til að hafna öllum tilboðum.

Þorbjörn hf. var settur á stofn árið 1953 af fjórum sjómönnum um útgerð á vélbát og saltfisk- og síldarverkun í Grindavík. Meðal stofnendanna var Tómas Þorvaldsson og keypti hann hluti hinna hluthafnna árið 1975. Tómas var forstjóri allt til ársins 1988 þegar synir hans þeir Gunnar og Eiríkur tóku við stjórnartaumunum. Félagið var lengst af í bátaútgerð ásamt því að vera með síldar-, saltfisk- og skreiðarverkun auk rækjuvinnslu. Þorbjörn hefur hins vegar alfarið fært sig úr hefðbundinni bátaútgerð í togaraútgerð með vinnslu úti á sjó, fyrst söltun um borð og síðan framhaldsvinnslu í landi. Straumhvörf urðu í rekstrinum á árinu 1988 þegar félagið keypti sinn fyrsta togara Gnúp GK-257 og síðan bættist frystiskipið Hrafn Sveinbjarnarson við árið 1990. Árið 1994 var aftur breytt um áherslur og breytingar miðuðu að því að draga úr saltfiskvinnslu, en að auka sjófrystingu. Þorbjörn hefur jafnframt fryst nokkuð af loðnu fyrir markaði í Japan og Bandaríkin. Á síðasta ári voru fryst samtals 950 tonn.

Veiðiheimildir tvöfölduðust

Straumhvörf urðu enn í rekstrinum síðastliðið sumar þegar Þorbjörn sameinaðist Bakka hf. á Bolungarvík og í Hnífsdal undir nafni Þorbjörns hf. Bakki hafði að grunni verið myndaður úr tveimur félögum, Bakka hf. í Hnífsdal og útgerðarfélaginu Ósvör í Bolungarvík.

Við samruna Bakka og Þorbjarnar tvöfölduðust veiðiheimildir Þorbjarnar auk þess sem rækjufrystiskipið Hrafnseyri var keypt. Félagið gerir nú út tvö flakafrystiskip, einn ísfisktogara og nýlega bættist í flotann rækjufrystiskipið Hrafnseyri ÍS-10. Þorbjörn á þar að auki einn ísfisktogara sem ekki er í rekstri. Landvinnslan jókst á ný við samrunann því auk saltfiskvinnslu í Grindavík rekur félagið nú tvær rækjuverksmiðjur í Hnífsdal og Bolungarvík, auk bolfiskvinnslu í Bolungarvík.

Afkoma Þorbjarnar af reglulegri starfsemi var í járnum á árunum 1994-1995, en hagnaður síðasta árs nam um 112 milljónum. Aftur á móti hafði afkoma Bakka verið mjög slæm því tapið af reglulegri starfsemi frá því í september 1996 til loka apríl 1997 nam um 319 milljónum, en endanlegt tap 191 milljón. Stafaði þetta tap m.a. af tveggja mánaða verkfalli í Hnífsdal, erfiðleika í bolfiskvinnslu og slakri útkomu útgerðar í Bolungarvík. Nánar má sjá afkomu Þorbjarnar á meðfylgjandi töflu.

Fullkomin bolfiskvinnsla í Bolungarvík

Á kynningarfundi hjá Íslandsbanka, umsjónaraðila útboðsins, á föstudag skýrðu þeir Gunnar og Eiríkur Tómassynir út fyrir fjárfestum stöðu félagsins og framtíðaráform. Sérstök grein var gerð fyrir áformum varðandi reksturinn í Bolungarvík, en þar hefur afkoma verið afar slæm.

"Vinnslan í Bolungarvík er ein hin fullkomnasta hér á landi og hefur alla bestu möguleika til að nýta sér þau tækifæri sem felast í frystingu," sagði Gunnar Tómasson á fundinum. Hann skýrði frá því að þar hefði fyrst og fremst verið framleidd blokk, en engin framleiðsla farið fram á formflökum. "Við höfum verið að reyna að snúa þessu við með því að breyta blokkarframleiðslunni yfir í framleiðslu á formflökum. Núna erum við að ganga frá samningum um sölu á ákveðnu magn af formflökum í hverjum mánuði, þannig að við reiknum með því að okkur takist að snúa þessum rekstri við. Þegar við komum að fyrirtækinu í sumar voru þar um 60 manns í vinnu, en áætlað er að þeir verði 20 í byrjun næsta ár. Við komum ekki til með að auka reksturinn þar fyrr en búið verður að snúa honum og ná hagnaði. Ef við fáum ekki hagnað munum við loka."

"Flugfiskurinn besti kosturinn"

Gunnar bar saman þá möguleika sem fyrirtækið hefur varðandi ráðstöfun á þorski. Þar kom fram að besti kosturinn fyrir fyrirtækið er að senda þorskinn út ferskan með flugi, því fyrir hvert kíló af hráefni fást 176 krónur. Frá dragast 50 krónur vegna kostnaðar þannig að eftir standa 120 krónur til greiðslu á hráefni og föstum kostnaði. Hins vegar sagði Gunnar að það væri mjög takmarkað magn sem hægt væri að flytja út á hverjum tíma því hörð samkeppni ríkti milli fyrirtækja í þessum útflutningi. Næstbesti kosturinn er að verka þorskinn í saltfisk sem gefur um 115 krónur á kíló. Lakast er að verka fiskinn í blokk því þannig fást einungis 88 krónur. En ef tekst að hefja vinnslu á formflökum fást hins vegar 113 krónur.

Rækjuvinnslur félagsins í Bolungarvík og Hnífsdal hafa verið reknar með hagnaði, en þær eru ekki langt undan rækjumiðunum. Gunnar benti á að nú væri spáð verulegri verðhækkun á rækju á næstunni.

Rækjukvótinn þrefaldaðist

Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir útgerðarþætti félagsins og kom m.a. fram að félagið gerir nú út Gnúp GK sem áður hét Guðbjörg. Þetta skip hefði verið að skila um 85% af aflaverðmæti nýju Guðbjargarinnar, þrátt fyrir að fjárfestingin hafi einungis verið um þriðjungur af kaupverði nýja skipsins.

Kvótaeign fyrirtækisins hefur aukist verulega við sameininguna við Bakka eins og fyrr segir og nemur nú samtals liðlega 10 þúsund þorskígildistonnum. Má nefna að rækjukvótinn hefur nær þrefaldast í kjölfar sameiningarinnar. "Það gerir okkur kleift að nýta betur rækjuverksmiðjurnar fyrir vestan og þar að auki höfum við dreift áhættunni í rækjuvinnslunni með því að hefja rækjufrystingu úti á sjó," sagði Eiríkur.

Aukið verðmæti frystitogara

Þorskkvóti fyrirtækisins jókst úr 1.370 tonnum upp í 3.400 þorskígildistonn við sameininguna og segir Eiríkur að vegna þeirrar aukningar verði hægt að auka verðmætið á frystitogurunum. "Við munum auka verðmætið á frystitogurunum á haustmánuðunum um 50% frá því sem verið hefur að meðaltali 1993- 1996." Afkoma frystitogara félagsins hefur að sama skapi verið mjög góð undanfarið og mun betri en að meðaltali hjá frystitogurum. Eiríkur skýrði frá því að hreinn hagnaður af frystitogurum hefði verið 18,4% af tekjum á árinu 1996, en tölur Þjóðhagsstofnunar hefðu sýnt 2,2% hagnað frystitogara að meðaltali. Fyrstu átta mánuði þessa árs hefði hagnaðurinn af togurum Þorbjörns numið 19,7%, en þá hefðu tölur Þjóðhagsstofnunar sýnt 1,3% tap. "Við erum að gera betur heldur en meðaltalið vegna þess að tekjur okkar eru hærri, en kostnaður minni. Einnig erum við með minna fjármagn bundið í þessum skipum en almennt gerist. Við fengum t.d. Hrafn Sveinbjarnarson á mjög góðu verði frá KEA á Akureyri."

Það kom jafnframt fram hjá Eiríki að afkoma frystiskipanna hefði farið batnandi að undanförnu vegna mikillar eftirspurnar eftir þorskflökum í Bretlandi. "Við höfum verið að sjá u.þ.b. 20% verðhækkun á þorskflökum í Bretlandi nú á haustmánuðum." Hann sagði að núna væri fyrirtækið smám saman að færa sig út úr framleiðslu fyrir Bandaríkin yfir í það að vinna fisk fyrir Bretland, enda gæfi það betri framlegð. Frystitogarar væru mjög sveigjanlegir að þessu leyti.

Góður árangur af gulllaxveiðum

Þá greindi Eiríkur frá því að Þorbjörn væri einn stærsti kvótahafi með steinbít á landinu og það kæmi sér vel fyrir frystinguna á Vestfjörðum. Sömuleiðis stæði fyrirtækið vel að vígi hvað karfakvóta snerti, en þar að auki ætti það um 1.200 tonna kvóta á úthafskarfa. En ýmsir aðrir möguleikar eru fyrir hendi hjá Þorbirni og sagði Eiríkur t.d. að staðsetning fyrirtækisins væri góð m.t.t. loðnufrystingar. Fyrirtækið hefur síðan verið að ná nokkrum árangri í gulllaxveiðum og frá miðju sumri hefur frystitogarar félagsins veitt um 800 tonn af gulllaxi og litla karfa. Þessar tegundir hafa ekki verið nýttar hingað til, en nú hafa fundist markaðir fyrir afurðirnar. Síðast en ekki síst er stutt á hefðbundin þorskmið á vetrarvertíðinni við Grindavík.

Eiríkur Tómasson kvaðst áætla að tekjur fyrirtækisins á þessu ári yrðu um 2 milljarðar króna og gert væri ráð fyrir því að þær ykjust í 2,5 milljarða á næsta ári.

Frá sameiningunni við Bakka hafa stjórnendur Þorbjörns breytt fjármögnun fyrirtækisins t.d. með verulegri lækkun skammtímaskulda. Þá er búið að endurfjármagna langtímalán að fjárhæð um 600 milljónir. Eiginfjárhlutfall hefur að sama skapi hækkað. Eftir sameininguna er síðan fyrir hendi í fyrirtækinu uppsafnað skattalegt tap að fjárhæð um 360 milljónir.

Það kom fram hjá Eiríki að fyrirtækið stefnir að því að ná 15% arðsemi eiginfjár, eiginfjárhlutfall verði ávallt um 30% og veltufjárhlutfall vel yfir 1. Hann kvaðst ekki geta greint frá áætlunum fyrirtækisins fyrir næsta ár. Ennþá væri unnið að endurskipulagningu eftir sameininguna. Þó sagðist hann reikna með því að frystiskipin næðu betri árangri á næsta ári en á þessu ári. Skipin myndu samtals skila um 1.200-1.300 milljóna aflaverðmæti. Þar við bættist að nú væri útlit fyrir hækkandi rækjuverð.

Markaðsvirði liðlega 3,6 milljarðar

Hlutafé Þorbjörns eftir samrunann við Bakka var ákveðið 450 milljónir króna, en hækkar nú í 480 milljónir. Nemur markaðsverðmæti félagsins samkvæmt útboðsgenginu liðlega 3,6 milljörðum og þarf félagið því að skila a.m.k. 150 milljóna hagnaði á ári til að standa undir þessu verði. Til samanburðar má nefna að Grandi hf. er nú metinn á tæplega 5 milljarða króna á hlutabréfamarkaði. Eiríkur sagði það álit forráðamanna félagsins að rekstur félagsins gæti staðið undir þessu gengi í framtíðinni. Raunar kom fram að félagið átti áður 10% hlut í sjálfu sér og voru þau bréf seld nú í haust til stofnanafjárfesta á genginu 7,57. Meðal kaupenda þá var Skeljungur hf., en einnig juku Burðarás hf., dótturfélag Eimskips, og Tryggingamiðstöðin hf. við sinn hlut.

Þorbjörn hefur sótt um skráningu hlutabréfa sinna á Verðbréfaþingi Íslands og er þess vænst að skráning fáist þegar uppfyllt hafa verið öll þau skilyrði sem Verðbréfaþing setur fyrir skráningu. Þess er vænst að skráning geti átt sér stað í febrúar árið 1998 eða fyrr ef útboðið klárast fyrir lok áætlaðs sölutímabils. Það er tilgangur útboðsins að hækka eiginfjárhlutfall og greiða niður skammtímaskuldir félagsins í tengslum við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem stendur yfir vegna samrunans við Bakka.

Morgunblaðið/Golli ÞEIR Gunnar Tómasson, stjórnarformaður Þorbjörns, og Eiríkur Tómasson framkvæmdastjóri kynntu stöðu félagsins fyrir fjárfestum á kynningarfundi hjá Íslandsbanka á föstudag.

FULLTRÚAR fjárfesta fylgdust af áhuga með kynningu forráðamanna Þorbjarnar.