AEK keypti nýlega tvo leikmenn, Líberíumann sem lék með Xanthi, liðinu sem sló AEK út úr bikarkeppninni í vetur, og Georgios Donis, sem verið hefur hjá Blackburn í Englandi.
AEK keypti nýlega tvo leikmenn, Líberíumann sem lék með
Xanthi, liðinu sem sló AEK út úr bikarkeppninni í vetur, og Georgios Donis, sem verið hefur hjá Blackburn í Englandi.MARCELLO Salas landsliðsmaður Chile og leikmaður River Plate gengur ekki til liðs við Manchester United eins og Alex Ferguson knattspyrnustjóri liðsins hefur vonað. Líklegast er talið að hann fari til Parma eða Lazio skipti hann um vettvang á annað borð.
IGOR Cvitanovic landsliðsmaður Króatíu og leikmaður með Króatíu frá Zagreb er að flytja sig um set til Real Sociedad. Þarf spænska félagið að reiða fram 245 milljónir fyrir leikmanninn og skiptist sú upphæð jafnt á milli Cvitanovic og króatíska félagsins.
CVITANOVIC er 27 ára og hefur leikið með Króatíu Zagreb í átta ár. Hann er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi, hefur gert 104 mörk í deildarleikjum. Samningur hans við Real Sociedad er til þriggja ára.
BARCELONA hefur mikinn áhuga á að fá Steve McManaman í sínar raðir og telja að hann geti orðið lykillinn að velgengni í Evrópukeppninni á næsta keppnistímabili. Hefur spænska félagið í hyggju að bjóða Liverpool 12 milljónir punda, um 1,4 milljarða króna fyrir McManamann.
TILBOÐIÐ verður ekki lagt fram fyrr en að lokinni heimsmeistarakeppninni í Frakklandi næsta sumar. Samningur McManamans við Liverpool rennur út sumarið 1999 og vilja forráðamenn Liverpool að hann geri nýjan samning og verði í herbúðum félagsins út feril sinn en leikmaðurinn er 25 ára.
LIVERPOOL gerði honum tilboð snemma árs en því hefur ekki enn verið svarað af umboðsmanninum Simon Fuller.
HOWARD Kendall knattspyrnustjóri Everton verður að selja einhverja leikmenn áður en hann fær að kaupa aðra til þess að styrkja liðið í botnbaráttunni. Þetta er álit hluthafa í félaginu og er reiknað með því að Gary Speed, Duncan Ferguson og Andy Hinchcliffe verði settir á sölulista. Kendall á fund með Peter Johnson stjórnarformanni Everton á föstudaginn þar sem Kendall ætlar að leggja áherslu á að fá peninga til leikmannakaupa.
BERNARD Lama fyrrum markvörður franska landsliðsins og Paris St. Germain kemur til greina sem markvörður West Ham, en félagið leitar nú að markverði í stað Ludek Miklosko sem verður frá keppni í tvo mánuði vegna meiðsla.
LAMA er sagður hafa áhuga því hann hefur ekki leikið frá því á síðustu leiktíð eftir að sannaðist upp á hann neysla á ólöglegum fíkniefnum. Lama telur að með því að leika á Englandi aukist líkur fyrir því að hann geti endurheimt sæti sitt í franska landsliðinu.
RUUD Gullit knattspyrnustjóri Chelsea er sagður í þann mund að ganga frá kaupum á Fan Zhiyi, knattspyrnumanni ársins í Kína árið 1996.
EINS munu Arsenal, Southampton, Crystal Palace og Nottingham Forrest vera að keppast um framherjann Hao Haidong , sem leikur með fyrrum Kínameisturum, Dalian Wanda.
BAKSLAG er komið í kaup Sheff. Wed. á Makedóníumanninum Coce Sedloski eftir að hann stóðst ekki læknisskoðun. Einnig var ósk félagsins um atvinnuleyfi hafnað. Ron Atkinson knattspyrnustjóri sagðist ekki vera búinn að gefa Sedloski upp á bátinn.