Hæstiréttur tekur
hart á E-pillum
Mikið magn fíkniefna, aðallega E-pillur, fannst við leit hjá tveimur
ferðalöngum, sem komu til landsins síðustu daga. Ragnhildur Sverrisdóttir segir að miðað við þá afstöðu Hæstaréttar sem fram hafi komið í dómum megi reikna með þungri refsingu í þessum málum, verði ferðalangarnir sakfelldir.
FRÁ byrjun þessa árs og allt til þriðjudagsins 16. desember sl. hafði verið lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna hér á landi, tæp 8 kíló af hassi, rúm tvö kíló af amfetamíni, hátt í fjögur þúsund skammta af LSD og tæplega 3.400 E-pillur.
Á sunnudag var sænsk kona handtekin í Leifsstöð og fundust um 1.100 E-pillur og 300 skammtar af LSD í fórum hennar. Konan var að koma frá Hollandi.
Örfáum dögum áður var hollenskur maður stöðvaður með m.a. rúmlega 800 E-pillur. Samtals voru þau því með um 2.000 E-pillur, sem er svipað og hald var lagt á allt síðasta ár.
Þótt nýjustu málin teljist stór fíkniefnamál og séu það vissulega, hefur magn haldlagðra efna oft verið meira en nú. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að þyngstu dómarnir eru kveðnir upp yfir þeim sem smygla hörðustu efnunum og á það jafnt við um dóma í héraði og fyrir Hæstarétti. Þyngsti dómur Hæstaréttar í fíkniefnamáli er t.d. 6 ára fangelsi, en þar komu E-pillur og kókaín við sögu.
Tugir kílóa
Á síðasta ári var lagt hald á rúm 36 kíló af hassi, rúm 6 kíló af amfetamíni og um 2.200 E-pillur. Í einu og sama málinu var Hollendingur á sextugsaldri tekinn með 10 kíló af hassi og var reyndar dæmdur fyrir innflutning á alls 25 kílóum af hassi, 1,5 kílóum af amfetamíni og 5-600 E-pillum. Ekki skilaði allt þetta efni sér til lögreglu, en þó fundust rúmlega 20 kíló af hassinu, um 500 E-pillur og 260 grömm af amfetamíninu og var það vænn hluti af öllu því efni sem hald var lagt á það árið.
Umræddur Hollendingur var gripinn í Leifsstöð í desember í fyrra og réttu ári síðar, eða í síðustu viku, var landi hans tekinn með yfir 800 E-pillur, 90 grömm af kókaíni og um 200 grömm af amfetamíni. Fyrstur í þessari Hollendingahrinu var hins vegar maður á þrítugsaldri, sem var handtekinn í Kópavogi í nóvember í fyrra með 964 E-pillur og rúm 58 grömm af kókaíni. Það var einmitt í máli hans sem Hæstiréttur felldi í janúar þyngsta dóm sinn hingað til og vísaði m.a. til greinargerðar yfirmanns Rannsóknastofu í lyfjafræði, þar sem segir að virka efnið í E-pillum sé greinilega hættulegri vímugjafi en bæði amfetamín og LSD, einkum ef tekið sé tillit til bráðra og banvænna eituráhrifa. Komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu um sök sænsku konunnar, sem flutti hingað 1.100 E-töflur og Hollendingsins með 800 töflurnar eiga þau vart von á mildum dómi.
LSD hvarf aldrei
LSD var lítt áberandi hér á landi um nokkurra ára skeið, en það var töluvert í umferð hér á hippatímanum. Það hefur aldrei horfið alveg, en oftast fundist nokkrir tugir eða hundruð skammta á ári. Í fyrra voru skammtarnir 261 og árið þar á undan 11. Þessi tala rýkur upp í ár, því 3.678 skammtar af efninu hafa fundist. Þar munar auðvitað mest um 3.000 skammta sem fundust í maí í bréfi sem sent var hingað til lands frá Belgíu. Það var stærsta sending sem fundist hefur í einu hér á landi.
Ekki er hægt að álykta sem svo að framboð á LSD hafi stóraukist þrátt fyrir að heildartala haldlagningar rjúki svona upp, því þarna er einu máli nánast um að kenna. Sama á við um þau tvö ár önnur sem skera sig úr vegna þess hve mikið hefur fundist af LSD. Árið 1985 fundust alls rúmlega 2.200 skammtar, þar af 2.000 í einu lagi. 1989 fundust tæplega 700 skammtar og þar af um 600 í einu og sama málinu.
LSD er oftast í formi vökva, sem hefur verið látinn síast í pappírsarkir. Efnið er því fyrirferðarlítið og getur reynst snúið að hafa uppi á því.
Vítisenglar og dans
Það vekur athygli í fréttum af sænsku konunni, sem handtekin var á sunnudag, að hún hefur þrisvar áður komið hingað til lands, í tvö skipti til að starfa sem "listdansmær" á veitingahúsi. Ekkert skal fullyrt um mál þessarar konu, enda lögreglu að rannsaka það. Starf konunnar leiðir þó hugann að því, að kanadíska lögreglan upplýsti íslenska starfsbræður sína sl. vor um að fyrirtæki sem íslenskir nektardansstaðir hafa átt viðskipti við, væru í eigu eða tengslum við Vítisengla (Hell's Angels). Kanadíska lögreglan sagði að fatafellur sem hingað kæmu væru margar á sakaskrá, í tygjum við Vítisengla og nytu verndar þeirra.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur lögreglan ekki séð merki þess að Vítisenglar væru að hasla sér völl hér.
Að sama skapi hefur ekki orðið vart við að Ísland sé orðið viðkomustaður fíkniefnasmyglara á leið frá Bandaríkjunum til Evrópu, eins og lögregluforingi hjá Interpol varaði við í samtali við Morgunblaðið í nóvember í fyrra. Sá sagði hættuna þá að hluti efnanna yrði eftir í viðkomulandinu Íslandi. Hingað berast svo sannarlega fíkniefni, en straumurinn virðist liggja frá Hollandi og nálægum löndum til Íslands.
Morgunblaðið/Ásdís LSD er oftast í formi vökva, sem hefur verið látinn síast í pappírsarkir með mörgum litlum myndum á, eins og sjást í glösunum. Ein mynd er einn skammtur. Í glösunum tveimur yst til hægri eru E-pillur, sem eru til í öllum stærðum og litum.