ÞEGAR menn hugsa til rithöfunda, kemur uppí hugann risherbergi með hripleku þaki og tæringarsjúkt skáld sem hóstar á milli þess sem það skrifar meistaraverkin á blað, þar sem það liggur á dýnu á gólfinu.
Gerðarleg kvöldstjarna
Gerður Benediktsdóttir
les bernskuminningar á Rás 1 á morgun og flytur barnakór ljóð hennar við lag Geirmundar Valtýssonar. Börkur Gunnarsson tók hana tali.ÞEGAR menn hugsa til rithöfunda, kemur uppí hugann risherbergi með hripleku þaki og tæringarsjúkt skáld sem hóstar á milli þess sem það skrifar meistaraverkin á blað, þar sem það liggur á dýnu á gólfinu. Í tilviki Gerðar Benediktsdóttur er þessu ekki þannig farið, hún rekur nuddstofu og selur smyrsl á líkamann en í hvert skipti sem skáldagyðjan kallar rýkur hún til, hvort sem hún er með smyrsl á höndunum eða er við það að sofna og hættir ekki að skrifa fyrr en allt sem býr í henni er komið á blaðið. Nú nýlega seldi hún fimm smásögur til útvarpsins og safnaði saman barnakór sem söng ljóð hennar sem Geirmundur Valtýsson hafði samið lag við. Sögurnar fjalla um litla krakka og þá sérstaklega litla stúlku sem tekur uppá því að strjúka af leikskólanum, neita strákum um að koma í afmæli sitt og syngur fyrir stjörnurnar þegar pabbi hennar er á sjónum. Upplestur smásagnanna og ljóðið verða flutt í jóladagskrá Rásar 1 í fyrramálið.
"Ætli ég sé ekki að skrifa frá mér bernskuna," segir Gerður. "Þegar ég var stelpa var ég alltaf að spinna upp sögur. Ég man þegar ég var að bera út í hverfinu mínu var ég alltaf dauðhrædd við að koma blaðinu í Höfða, því mér hafði verið sagt að þar væru draugar. En síðan spann ég alltaf upp ægilegar draugasögur fyrir krakkana í hverfinu, sem voru svo magnaðar að ég sjálf varð dauðhrædd og hljóp fyrst heim. Ég prófaði mig síðan áfram á leikskólanum í Breiðdalsvík þarsem ég vann í fjölda ára og þar fannst börnunum alltaf skemmtilegt að heyra þegar ég fór að skálda upp sögur fyrir þau. Svo hefur komið hingað á nuddstofuna hjá mér fjöldinn allur af leikurum og einhverjir þeirra rekið augun í þessar skriftir og hvatt mig áfram." Eru þetta reynslusögur? "Já, það kemur allt út frá einhverju sem maður hefur lifað. En auðvitað er ekki hægt að segja að allt sé sannleikur, en margt þarna er ansi nákvæmt úr uppvextinum. Ég hef alltaf verið minnug á atburði. Elstu systur minni þótti ótrúlegt að ég skyldi muna eftir því þegar ég flutti tveggja ára gömul úr Bretabragganum sem ég fæddist í, en það þurfti að ryðja hann fyrir kirkju sem nú gnæfir yfir Reykjavík sem stærsta kirkja landsins og nefnist Hallgrímskirkja. En þar átti ég heima fyrstu tvö ár ævi minnar áður en við fluttumst í Höfðaborgina." Eru þetta gömul verk? "Nei, sögurnar voru allar skrifaðar í vetur, en ljóðið "Jólin heima" var skrifað 1972." Muntu skrifa meira? "Já, ég held það, ég er ekki hætt. Ég mun láta eitthvað af barnasögunum sem ég á frá því á Breiðdalstímanum. Það er svo gaman að vinna með börnunum. Þessi barnakór var alveg yndislegur. Athugaðu það að öll börnin í kórnum voru skyld með einum eða öðrum hætti, m.a. voru þarna tvö af barnabörnunum mínum að syngja ljóð eftir ömmu sína." Verða þá næstu verk einnig byggð á reynslu þinni? "Já, líklegast að einhverju leyti. Það er af nógu að taka frá æskuárunum. Það var margt sem hrjáði og margt sem gladdi á æskuheimili mínu. Ég man að það gat orðið svo kalt heima að borðtuskan fraus á borðinu og við þurftum oft að láta vatnið renna svo það frysi ekki í leiðslunum. Annars veit maður ekkert hvað maður mun skrifa um, þetta kemur þegar það á að koma." Morgunblaðið/Þorkell HVAÐ ER betra en skær krakkasöngur undir vel völdum bernskuminningum. GERÐUR Benediktsdóttir les minningarbrot.