eftir Janosch í þýðingu Hauks Hannessonar. Útgefandi: Bjartur 1997, 28 síður. MYNDABÓK fyrir unga lesendur. Hér segir frá Ágústi, fjölskyldu hans og Lillu vinkonu. Mestur örlagavaldur í lífi snáðans er Frikki afi hans, slíkur völundur, að hann smíðar barnabarni sínu ekki aðeins bíl, heldur töfrabíl. það er vel, því ungum dreng er erfitt að hemja óskir sínar við eina gerð.

Undravagn

BÆKUR

Myndabók

RIGNINGARBÍLLINN

eftir Janosch í þýðingu Hauks Hannessonar. Útgefandi: Bjartur 1997, 28 síður.

MYNDABÓK fyrir unga lesendur. Hér segir frá Ágústi, fjölskyldu hans og Lillu vinkonu.

Mestur örlagavaldur í lífi snáðans er Frikki afi hans, slíkur völundur, að hann smíðar barnabarni sínu ekki aðeins bíl, heldur töfrabíl. það er vel, því ungum dreng er erfitt að hemja óskir sínar við eina gerð. Stundum vill hann glæsivagn; ­ stundum má hann vera minni; ­ stundum þarf snáðinn kranabíl; ­ stundum sjúkrabíl; ­ stundum vörubíl; ­ stundum kappakstursbíl!

Frikki afi var slíkur dverghagi, að hann leysti allan vanda stráksa: bíllinn hreinlega breytti um gerð, allt eftir því til hvers hann var ætlaður, og það með svo skjótum hætti, að vart festi auga á.

Oft er hægt að breyta með vatnsúða úr garðslöngu, en grunur minn er, að til þess þurfi töfragripurinn að standa kyrr. Frikki afi veit, að garðslöngunni verður ekki ætíð við komið, því útbýr hann fararskjótann með tölvu, sem á svipstundu breytir honum í algjört tryllitæki, ef leynitákn hugvitsmannsins eru slegin inn. Þetta er sem sé bók um samskipti lítils kúts og afa hans, löngu áður en stráksa verður ljóst, að afi gamli getur ekki allt!!!

Myndir eru mjög skemmtilegar, barnslega einlægar.

Þýðing Hauks er góð, hefði þurft aðeins lengri yfirlegu og þá orðið listagóð.

Að rölta með slíka bók að rúmstokki barns hlýtur að vera gaman.

Sig. Haukur