Á ÞESSU ári hefur verið unnið að skipulagsbreytingum innan SPRON. Nýtt skipurit hefur m.a. verið tekið í notkun. Helstu breytingar felast í skýrari verkaskiptingu milli sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra, þrjú ný fagsvið hafa verið mynduð,


Skipulagsbreytingar hjá SPRON

Á ÞESSU ári hefur verið unnið að skipulagsbreytingum innan SPRON. Nýtt skipurit hefur m.a. verið tekið í notkun. Helstu breytingar felast í skýrari verkaskiptingu milli sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra, þrjú ný fagsvið hafa verið mynduð, meiri aðgreining verður milli höfuðstöðva og útibúsins á Skólavörðustíg og nokkrar áherslubreytingar verða gerðar á starfsemi útibúa sparisjóðsins, að því er segir í frétt frá SPRON.

Þau þrjú fagsvið sem sett hafa verið á fót eru viðskiptastofa, markaðs- og sölusvið og fyrirtækjasvið. Vegna framangreindra breytinga hafa eftirfarandi breytingar orðið á starfsmannahaldi SPRON:

SIGURJÓN Hjartarson hefur verið ráðinn í stöðu markaðsstjóra SPRON, en hann er yfirmaður markaðs- og sölusviðs sparisjóðsins. Sigurjón hefur verið útibússtjóri í útibúi SPRON í Skeifunni 11 frá því það var opnað haustið 1994. Sigurjón lauk prófi í viðskiptafræðum frá Rockford College í Bandaríkjunum árið 1987. Sigurjón starfaði í Útvegsbankanum hf., síðar Íslandsbanka, sem lánasérfræðingur frá 1987 til 1994. Sigurjón situr í stjórn Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. Sigurjón tekur við starfi markaðsstjóra 1. febrúar nk. Eiginkona hans er Kristín Sigurðardóttir og eiga þau 3 börn.

ARI Bergmann Einarsson hefur verið ráðinn í stöðu útibússtjóra í útibúi SPRON, Skeifunni 11. Þetta útibú leggur sérstaka áherslu á fyrirtækjaviðskipti. Ari lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1969 og stundaði framhaldsnám við London School of Foreign Trade 1970­ 1971. Hann starfaði hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur um nokkurra ára skeið, en frá árinu 1974 starfaði hann sem framkvæmdastjóri Áklæða og gluggatjalda hf. Ari hefur tekið mikinn þátt í störfum íþróttahreyfingarinnar. Ari tekur við starfi útibússtjóra 1. febrúar n.k. Eiginkona hans er Ólöf Erla Óladóttir og eiga þau 2 börn.

ARNAR Bjarnason framkvæmdastjóri Viðskiptastofu SPRON. Arnar lauk cand. oceon. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1985, MBA námi frá Aston Business School í Bretlandi og doktorsprófi (Ph.D) frá Edinborgarháskóla árið 1994. Arnar var fjármálastjóri Ferðaskrifstofu Íslands hf. frá 1994­1996, hagfræðingur í Alþjóðadeild Íslandsbanka hf. 1990, framkvæmdastjóri Alþjóðadeildar Verslunarbanka Íslands hf. 1988­1989, fjármálastjóri Bílaborgar hf. 1987­1988 og fjármálastjóri Ferðaskrifstofunnar Úrvals 1985­1986. Arnar tók við stöðu framkvæmdastjóra Viðskiptastofu SPRON 12. maí sl.