Safnað fyrir konur í
Lesótó og Júgóslavíu
DEILDIR Rauða kross Íslands á
Norðurlandi hafa hafið söfnun á hannyrðaefnum og er fyrirhugað að senda það sem safnast til Lesótó þar sem konur munu vinna ýmsan varning úr hráefninu. Þær selja vörurnar og hafa af því nokkrar tekjur en jafnframt verður ágóðanum varið til reksturs heilsugæslustöðvar á vegum Rauða kross Lesótó. Söfnunin stendur til 1. mars nk. Söfnun deilda Rauða kross Íslands á Suðurlandi á garni og lopa fyrir konur í Júgóslavíu lýkur hins vegar um áramótin og verður gámur sendur utan fljótlega í janúar.
Í frétt frá RKÍ kemur fram að á Norðurlandi sé fyrirhugað að safna góðum, notuðum og ónotuðum efnum og efnisafgöngum, svo sem gluggatjöldum og þess háttar, garnaafgöngum, tölum, prjónum, nálum og öðru sem kemur sér vel við hannyrðir. Afrakstur söfnunarinnar verður sendur utan í gámi. Þeir sem vilja taka þátt í söfnuninni geta haft samband við Rauða kross deildina í sinni heimabyggð en auk þess veitir svæðisskrifstofa RKÍ á Norðurlandi upplýsingar.
Deildirnar á Norðurlandi eru 13 talsins og eru í vinadeildasamstarfi við Rauða kross Lesótó. Lesótó er fjalllent ríki í Suður-Afríku með um tvær milljónir íbúa. Flestir íbúanna lifa af landbúnaði. Rauði kross Lesótó rekur m.a. heilsugæslustöðvar í afskekktustu fjallahéruðum landsins og hafa Rauði kross Íslands og deildir hans á Norðurlandi styrkt tvær þeirra. Hvor stöðin um sig þjónar um tíu þúsund manns og er enga aðra læknisþjónustu að fá á svæðunum. Mest áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir eins og bólusetningar, mæðra- og ungbarnaeftirlit, heilbrigðisfræðslu, næringarráðgjöf og eftirlit með næringarástandi ungra barna. Auk þess er veitt meðhöndlun við staðbundnum sjúkdómum.
Deildir Rauða kross Íslands á Suðurlandi eru að hefja vinadeildasamstarf við Rauða kross Júgóslavíu.