JAPÖNSK sjónvarpsstöð hefur kvatt lækna, sálfræðinga og sérfræðinga í teiknimyndagerð til liðs við sig og beðið um aðstoð þeirra við að komast að því hvers vegna teiknimynd, sem byggist á vídeóleiknum "Pocket Monsters" veldur ósjálfráðum ofsafengnum vöðvasamdrætti hjá börnum.

Teiknimyndaskrímsli

veldur krampaköstum

Tókýó. Reuters.

JAPÖNSK sjónvarpsstöð hefur kvatt lækna, sálfræðinga og sérfræðinga í teiknimyndagerð til liðs við sig og beðið um aðstoð þeirra við að komast að því hvers vegna teiknimynd, sem byggist á vídeóleiknum "Pocket Monsters" veldur ósjálfráðum ofsafengnum vöðvasamdrætti hjá börnum.

Talsmaður sjónvarpsstöðvarinnar TV Tókýó sagði að rúmlega 700 börn um land allt hefðu verið send á sjúkrahús á þriðjudagskvöld eftir að hafa horft á teiknimyndina.

Fulltrúi japanska heilbrigðisráðuneytisins sagði, að í gær, sólarhring seinna, hefðu 208 manns á aldrinum frá þriggja ára og upp úr, þ.á m. 58 ára gamall maður, enn legið inni vegna einkenna, sem líktust flogaveikiköstum.

Krampaköstin byrjuðu í öllum tilvikum þegar myndin hafði staðið í um 20 mínútur en hún er hálftími að lengd. Gerðist það eftir atriði þar sem rauð ljós blossa í fimm sekúndur úr augum aðalsögupersónunnar, Pikachu, sem líkist helst rottu, strax að lokinni mikilli sprengingu þar sem sterk rauð ljós fylltu skjáinn.

Málið kom til kasta Ryutaro Hashimoto forsætisráðherra sem sagði að fara ætti varlega með geislabyssur og geislastólpa í teiknimyndum því um vopn væri í raun og veru að ræða. Áhrif þeirra á áhorfendur væru ekki með öllu ljós.

Sjónvarpsstöðin hefur nú ákveðið að birta aðvörun í upphafi útsendinga þar sem fram kemur að teiknimyndin geti leitt til yfirliðs, dáleiðslu eða líkamlegra óþæginda.

Reuters LJÓSBLOSSAR standa út frá augum Pikachu, aðalpersónunnar í japönsku teiknimyndinni sem kallaði fram krampaköst hjá mörg hundruð sjónvarpsáhorfenda.