HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra segir að það hafi legið lengi fyrir að í nálægum löndum hafi reynst óhjákvæmilegt að leggja á veggjöld með einhverjum hætti til þess að standa undir fjárfrekum gatna- eða vegagerðarframkvæmdum, brúarsmíði, jarðgöngum og öðru þvíumlíku,

Eigum að íhuga svona skattheimtu

HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra segir að það hafi legið lengi fyrir að í nálægum löndum hafi reynst óhjákvæmilegt að leggja á veggjöld með einhverjum hætti til þess að standa undir fjárfrekum gatna- eða vegagerðarframkvæmdum, brúarsmíði, jarðgöngum og öðru þvíumlíku, þar sem hefðbundnar álögur og skattar á umferðina hafi ekki staðið undir sívaxandi kostnaði við flókna mannvirkjagerð þar sem umferð sé þung.

Skuggagjöld

"Það hefur verið reiknað út að þar sem umferðaröngþveiti er mest eru frátafir farnar að skipta máli í sambandi við þjóðarframleiðslu og valda þar að auki aukinni mengun. Allt er þetta í miklu smærri stíl hér á landi, en eigi að síður erum við með það í athugun að taka upp svonefnd skuggagjöld til þess að standa undir framkvæmdum við Reykjanesbraut til Hafnarfjarðar og síðar meir Sundabraut og ef til vill tvöföldun Keflavíkurvegar. Svo vitum við að Hvalfjarðargöngin verða fjármögnuð með veggjaldi, en úti á landi er umferð ekki svo mikil að slík innheimta standi undir sér," sagði Halldór.

Um skuggagjöld er að ræða þegar framlög til tiltekinnar framkvæmdar úr vegasjóði ráðast af áætlaðri umferð um mannvirkið, án þess að veggjald sé innheimt af hverjum og einum vegfaranda.

Halldór sagði að sér fyndist sú hugmynd athyglisverð að hægt yrði að fylgjast með umferð í gegnum gervihnött án þess að það kosti of mikið. Hann sé ekki í vafa um að við eigum að íhuga slíka skattheimtu til þess að reyna að draga úr álaginu þegar umferðarþunginn er mestur eða reyna að beina þungaflutningum þá leið sem við viljum að þeir fari.

"Það er líka hugsanlegt að það opnist möguleikar víðar en hér á höfuðborgarsvæðinu á að hægt sé að fá hluta af kostnaðinum til baka með veggjöldum til dæmis á Eyjafjarðarsvæðinu, þó ég sjái það nú ekki fyrir mér enn sem komið er."

Áhugaverð umræða

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segir að þarna sé á ferðinni mjög áhugaverð og nauðsynleg umræða, því það sé alveg ljóst að loftmengnun vegna bílsins sé einungis einn hluti þess vanda sem bifreiðaumferð skapi í umferðinni. Hitt sé ekki síður vandamál hvað bíllinn taki mikið pláss í borgarmyndinni og það umferðaröngþveiti sem geti fylgt honum.

"Þetta er mjög áhugaverð umræða, en það þarf að skoða þessi mál af ákveðinni varfærni. Ef því fylgdi aukinn kostnaður að fara niður í eldri hluta borgarinnar getur það haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir þann borgarhluta," sagði Ingibjörg Sólrún ennfremur.

Hún sagði að það gæti því orðið erfitt að hrinda svona hugmyndum í framkvæmd og þyrfti að hugsa það mjög vandlega fyrirfram, því stýring af þessari tegund gæti auðvitað haft margvísleg hliðaráhrif sem menn þyrftu að geta séð fyrir.

Hún sagði að nú virtist vera mikil fjölgun í nýskráningum bifreiða, sem fylgdi kannski góðærinu, og hún teldi mjög æskilegt ef hægt yrði að búa þannig um hnútana að almenningssamgöngur yrðu valkostur fyrir fólk í umferðinni hvað seinni bílinn varðaði. Fólk væri mjög háð bíl í nútímasamfélagi, en ef almenningssamgöngur gætu verið valkostur á móti bíl númer tvö á heimilum væri það strax til mikilla bóta.

Ríkið skattleggur almenningssamgöngur

"Það er náttúrlega svolítið öfugsnúið í þessu öllu að ríkið setur verulega fjármuni í gatnakerfið til þess að flytja einkabílinn, en það setur enga fjármuni í almenningssamgöngur og meira að segja skattleggur þær. Þetta er hlutur sem við framkvæmdastjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu höfum rætt við fjármálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti og ég held að það yrði strax til mikilla bóta ef ríkið hætti að skattleggja almenningssamgöngur," sagði Ingibjörg Sólrún einnig.