Deilt um
kjördag
Phnom Penh. Reuter.
HUN Sen Kambódíuleiðtogi sagðist
í gær vilja að þingkosningar færu fram í maí næstkomandi eins og ráð væri fyrir gert. Lagðist hann gegn frestun þeirra eins og Sar Kheng innanríkisráðherra lagði til á þingi í fyrradag.
Kheng, sem haft hefur eftirlit með undirbúningi kosninga, sagði að ekki væri nægur tími til að ljúka nauðsynlegum tæknilegum undirbúningi fyrir maí. Lagði hann til að kosningunum yrði frestað fram í október.
Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), tók undir með Kheng í gær og sagði að stjórnvöld í Kambódíu ættu að hugleiða að fresta kosningunum ef ekki væri hægt að halda frjálsar og drengilegar kosningar í maí.
Hun Sen tjáði blaðamönnum í gær að það væri óbreytt stefna stjórnvalda að kosningarnar skyldu fara fram 23. maí. Þingið hefði hins vegar síðasta orðið. Skipaði það nefnd í kjölfar yfirlýsingar Khengs til þess að kanna stöðu mála og gera tillögu um endanlegan kjördag.
Efnt var til þingkosninga í Kambódíu árið 1993 fyrir tilstuðlan SÞ og mun undirbúningur þeirra og framkvæmd kostað stofnunina tvo milljarða dollara. Tilgangurinn var að endurreisa lýðræði í landinu eftir langvarandi innanlandsófrið. Flokkur Norodom Ranariddh prins vann naumlega en þeir Hun Sen deildu störfum forsætisráðherra í samsteypustjórn. Stjórnarsamstarfið fór út um þúfur er átök blossuðu upp í sumar og Hun Sen vék Ranariddh frá.