THABO Mbeki var í gær útnefndur næsti flokksformaður Afríska þjóðarráðsins, ANC, á 50. landsfundi ráðsins sem nú fer fram í Suður- Afríku. Mbeki, sem nýtur stuðnings Nelsons Mandela, fráfarandi formanns ANC og forseta landsins, var eini frambjóðandinn í stöðuna. Hann mun taka formlega við embættinu við lok fundarins á laugardag.
Leiðtogaskipti innan ANC

Winnie gaf

ekki kost á sér

Mafeking. Reuters

THABO Mbeki var í gær útnefndur næsti flokksformaður Afríska þjóðarráðsins, ANC, á 50. landsfundi ráðsins sem nú fer fram í Suður- Afríku. Mbeki, sem nýtur stuðnings Nelsons Mandela, fráfarandi formanns ANC og forseta landsins, var eini frambjóðandinn í stöðuna. Hann mun taka formlega við embættinu við lok fundarins á laugardag.

Í þakkarræðu sinni vísaði Mbeki óbeint í ræðu Nelsons Mandela frá því á þriðjudag en Mandela hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla í kveðjuræðu sinni sem formaður ráðsins. Í ræðunni hvatti forsetinn arftaka sína m.a. til þess að vinna að því að breytingar verði gerðar á skiptingu auðæfa í landinu og ásakaði íbúa af evrópskum uppruna um að reyna að komast hjá þeim fórnum sem uppbygging nýrrar Suður-Afríku krefst. Íbúar af evrópskum uppruna brugðust reiðir við og ásökuðu forsetann um að hvetja til kynþáttamisréttis gegn sér.

Mbeki, sem talið er fullvíst að verði næsti forseti Suður-Afríku, sagði í ræðu sinni að forystan hefði fengið skýr skilaboð þess efnis að byltingunni væri langt frá því lokið.

Winnie dró framboð sitt til baka

Eitt fyrsta verk Mbekis eftir útnefninguna var að hafna ósk Winnie Madikizela-Mandela um að fá að ráðfæra sig við stuðningsmenn sína eftir að hún var tilnefnd til embættis varaformanns ráðsins.

Madikizela-Mandela, sem er fyrrverandi eiginkona Nelsons Mandela, hafði sóst eftir tilnefningu til embættisins en kvaðst hætt við að gefa kost á sér eftir að Mbeki hafnaði ósk hennar. Áður hafði ráðið breytt reglum þannig að frambjóðendur þyrftu stuðning 3.000 fulltrúa til þess að tilnefning þeirra yrði staðfest.

Jacob Zuma var því útnefndur til embættis varaformanns án þess að til mótframboðs gegn honum kæmi.

Reuter Madikizela-Mandela óskar Zuma til hamingju með útnefninguna.