ÞRÍR bátar eyðilögðust í eldi í höfninni á Rifi á Snæfellsnesi aðfaranótt miðvikudags. Voru það allt plastbátar, 4-6 tonn að stærð, og sukku þeir allir í höfninni. Tveir bátanna náðust af hafsbotni í gær. Tjónið er metið á um þrjátíu milljónir króna. Elísabet Jensdóttir á Rifi sá eldinn fyrst út um stofugluggann hjá sér en hún var að pakka inn jólagjöfum um kl. þrjú um nóttina.
Hluti fiskibátaflotans á Rifi á Snæfellsnesi stóð í ljósum logum um miðja nótt

Þrír bátar ónýtir

ÞRÍR bátar eyðilögðust í eldi í höfninni á Rifi á Snæfellsnesi aðfaranótt miðvikudags. Voru það allt plastbátar, 4-6 tonn að stærð, og sukku þeir allir í höfninni. Tveir bátanna náðust af hafsbotni í gær. Tjónið er metið á um þrjátíu milljónir króna.

Elísabet Jensdóttir á Rifi sá eldinn fyrst út um stofugluggann hjá sér en hún var að pakka inn jólagjöfum um kl. þrjú um nóttina. Þá voru bátarnir orðnir alelda. Hún hafði strax samband við lögreglu. Slökkvistarfi var lokið um klukkan fjögur. Bátarnir lágu bundnir við flotbryggju hafnarinnar en auk þeirra voru fjölmargir aðrir bátar í höfninni. Margir aðrir bátar voru við flotbryggjuna og var mikil hætta á því að eldur læstist í þá. Trillusjómenn komu fljótlega á staðinn og drógu bátana til með því að festa taug í þá frá bílum. Mjög líklegt er talið að kviknað hefði í þeim ella. Fiskikör í nærliggjandi báti bráðnuðu. Fljótlega eftir að eldurinn kom upp brunnu landfestar þannig að bátana rak út á höfnina og þar sukku þeir einn af öðrum.

Eitraðar lofttegundir mynduðust

Eitraðar lofttegundur mynduðust við bruna plastbátana en engan sakaði í slökkvistarfinu.

Bátarnir voru Blíðfari SH 153 sem er fjögur tonn, Ingunn ÁR 27 sem er sex tonna bátur og stærstur þeirra var Óli SH 305 sem var átta tonn. Ekki er vitað með vissu um upptök eldsins en talið hugsanlegt að kveikt hafi verið í kabyssu eins þeirra. Tjónið er talið vera hátt í 30 milljónir króna.

Morgunblaðið/Guðlaugur Wium BÁTANA þrjá rak frá öðrum bátum þegar landfestar brunnu. Að öðrum kosti hefði getað farið verr og kviknað í fleiri bátum. Fiskkör í nálægum báti bráðnuðu vegna hitans.