TorgiðDýrar átta mínútur »SÍÐASTLIÐINN mánudag átti sér stað nokkuð sögulegt inngrip Seðlabanka Íslands á innlendum peningamarkaði er bankinn efndi til svonefnds skyndiuppboðs á endurhverfum verðbréfakaupum, alls upp á rúma 5 milljarða króna.
Torgið

Dýrar átta mínútur

»SÍÐASTLIÐINN mánudag átti sér stað nokkuð sögulegt inngrip Seðlabanka Íslands á innlendum peningamarkaði er bankinn efndi til svonefnds skyndiuppboðs á endurhverfum verðbréfakaupum, alls upp á rúma 5 milljarða króna. Var þessi aðgerð ætluð til að létta á lausafjárvanda bankanna og um leið draga úr þeim framboðsþrýstingi á verðbréfamarkaði, sem þrýst hafði vöxtum upp á við.

Aðgerðin bar tilætlaðan árangur því vextir lækkuðu strax á mánudag og héldu raunar áfram að lækka á þriðjudag. Hins vegar kom upp talsverð gagnrýni á það hvernig að upplýsingagjöf um útboðið var staðið.

Seðlabankinn sendi sem kunnugt er viðskiptabönkum og sparisjóðum tilkynningu um verðbréfakaupin á bilinu 9:30-9:45 á mánudagsmorgun. Verðbréfaþing fékk tilkynninguna hins vegar ekki fyrr en klukkan 9:55 og vegna tæknilegra örðugleika tókst ekki að koma henni inn á viðskiptakerfi þingsins fyrr en 10:08 eða átta mínútum eftir að viðskipti hófust.

Átta mínútur kunna ekki að hljóma mjög langur tími í eyrum margra en í verðbréfaviðskiptum getur auðvitað mikið gerst á svo skömmum tíma. Til að mynda áttu sér stað viðskipti fyrir um 400 milljónir króna á þessum tíma og var hluti þeirra sem aðild áttu að þeim viðskiptum að "selja blint", þ.e. selt var inn á ný kauptilboð sem myndast höfðu vegna frétta af útboði Seðlabankans.

Þessi kauptilboð voru hagstæðari en boðist hafði í fyrri viðskiptum en nokkru óhagstæðari en buðust stuttu síðar er allir markaðsaðilar höfðu áttað sig á útboði bankans. Ljóst er að fjárhagslegt tjón þeirra sem þar voru að selja getur hlaupið á nokkrum milljónum króna.

Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, segir það vera mjög líklegt að umrædd viðskipti hefðu ekki átt sér stað á þeirri ávöxtunarkröfu sem um er að ræða, hefðu allir markaðsaðilar haft sömu upplýsingar.

"Það má ef til vill segja að formlega hafi Seðlabankinn uppfyllt upplýsingaskyldu sína með því að senda tilkynninguna til Verðbréfaþings fimm mínútum fyrir opnun. Það er hins vegar spurning af hverju bankinn sendi tilkynninguna fyrst til viðskiptabankanna. Þeir höfðu klárlega mun lengri tíma til að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefði á markaðinn. Seðlabankinn var því greinilega að gefa þeim ákveðið forskot og það sýndi sig eftir á að þessi aðgerð hafði veruleg áhrif á allt vaxtarófið.

Það má hins vegar einnig spyrja hvort ekki hefði verið rétt af Verðbréfaþingi að fresta opnun viðskipta í ljósi aðstæðna. Það hefði væntanlega verið auðveld aðgerð og enginn hefði þá getað átt viðskipti," segir Sigurður.

Úrbóta að vænta

Stefán Halldórsson segir að í kjölfar þessa atburðar hafi Verðbréfaþing óskað eftir fundi með bankastjórn Seðlabankans. Þar hafi náðst samkomulag um að setja á fót sérstakan vinnuhóp sem fjalla eigi um upplýsingagjöf Seðlabankans til VÞÍ. Sérstaklega verði horft til þarfa markaðarins um upplýsingar og að jafnræðis verði gætt. Hins vegar verði einnig að horfa til sérstöðu Seðlabankans en hann sé sérstaklega undanþeginn nokkrum ákvæðum laga um Verðbréfaþing.

"Vinnuhópurinn mun hins vegar fjalla um það hvað bankinn þurfi að upplýsa markaðinn um og hvað ekki. Þá verður sérstaklega hugað að því hvaða hliðar á þessum málum gætu snúið að íslenska ríkinu, þ.e. Lánasýslu ríksins og fjármálaráðuneyti. Þessir aðilar hafa áhrif á þróun mála á fjármálamarkaði og á þeim hvílir einnig sú skylda að gæta jafnræðis gagnvart öllum markaðsaðilum. Við teljum því nauðsynlegt að setja vinnureglur um upplýsingagjöf þeirra," segir Stefán.

Upplýsingagjöf opinberra aðila getur haft mun meiri áhrif á verðmyndun verðbréfa en t.d. upplýsingagjöf einstakra fyrirtækja og því er nauðsynlegt að um þá upplýsingagjöf gildi skýrar reglur sem tryggi að allir markaðsaðilar hafi aðgang að sömu upplýsingum. Það er ljóst af reynslunni að verulegir fjárhagslegir hagsmunir geta þar verið í húfi.

Íslenskur verðbréfamarkaður er enn nokkuð ungur að árum og því eðlilegt að einhverja hnökra sé enn að finna á honum. Það eru hins vegar góð tíðindi að svo skjótt skuli brugðist við þeim vandamálum sem upp koma, eins og í þessu tilviki.

ÞV