Rheinhausen
gjaldþrota?
ÞÝSKA handknattleiksliðinu
OSC Rheinhausen hefur ekki gengið sem best í 1. deildinni á þessari leiktíð og er sem stendur í næst neðsta sæti með 6 stig. Ekki nóg með það heldur á félagið svo gott sem gjaldþrota. Japanski bílaframleiðandinn Honda hafði boðist til að koma inn í rekstur félagsins og leggja fram tæplega 250 milljónir króna á næstu þremur árum. Sá böggull fylgdi skammrifi að fyrirtækið vill að nafni þess yrði bætt við nafn félagsins þannig að liðið kallaðist Rheinhausen-Honda eða öfugt. Þessa tillögu vildu forráðamenn þýska handknattleikssambandsins ekki samþykkja. Þar með hætti bílaframleiðandinn við forráðamönnum Rheinhausen til sárra vonbrigða.
Forráðamenn Rheinhausen segjast vera bjartsýnir á að lausn á fjárhagsvandanum og þeim takist að verða sér út um rúmar 40 milljónir króna fyrir 1. febrúar nk. Takist það ekki verður félagið lýst gjaldþrota og leikir þess á leiktíðinni lýstir ógildir.
Komi til þess er nær öruggt að besti leikmaður liðsins, Júgóslavinn Nedeljko Jovanovic, gangi til liðs við GWD Minden. Viðræður þess efnis hafa verið á milli félagana. Íslenskir handknattleiksáhugamenn ættu að muna eftir Jovanovic því hann var leikstjórandi júgóslavneska landsliðsins gegn Íslandi í Laugardalshöll fyrir skömmu og fór á kostum.