Fóðurverð skýrir
ekki verðmun
GUNNAR Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fóðurblöndunnar,
segir verð á fóðri hér á landi 35-40% hærra en í Danmörku, en ekki 80-90% hærra eins og fram kom í viðtali við Ólaf Jón Guðjónsson, einn eigenda Móakjúklinga í Morgunblaðinu í gær. Gunnar segir að fóðurverðið sé ekki meginskýringin á hærra verði kjúklinga hér á landi heldur en í nágrannalöndunum.
Gunnar segir að staðgreiðsluverð á fóðri í Danmörku sé um 23 krónur kílóið, en um 31 króna á Íslandi. "Það sem ræður verðmismuninum á fóðri er smæð markaðarins og flutningskostnaðurinn á hráefninu og hugsanlegur gæðamunur á blöndum."
Ólafur Jón sagði einnig að fóðurgjald hefði áhrif til hækkunar á fóðurverði. Samkvæmt lögum er leyfi til innheimtu allt að 55% fóðurgjalds af innfluttu fóðri eða hráefni til fóðurgerðar en í reglugerð frá 31. júlí 1996 er tiltekið að endurgreiða skuli fóðurgjald til innflytjenda eða framleiðanda að mestu. Haldið er eftir 80 aurum á kíló hráefnis til fóðurgerðar og 7,80 krónum af fóðurblöndum.
Gunnar segir verndartolla einnig vera til staðar í Evrópusambandinu gagnvart fóðri sem flutt væri frá Íslandi, en þar yrði haldið eftir tólf krónum af hverju kílói af fóðurblöndu.
Kjúklingaframleiðendum var haldið í klafa
Gunnar segir að helstu skýringar á hærra kjúklingaverði hér á landi séu strangara aðhald og eftirlit í heilbrigðismálum, til dæmis sé notkun vaxtarhvetjandi efna bönnuð hér. "Það er heldur ekkert leyndarmál að kjúklinga- og svínakjötsframleiðslunni var haldið í klafa af stjórnvöldum í áratugi. Þeir fengu ekki að flytja inn betri stofna eða endurbæta þá sem fyrir voru. Stofnarnir sem voru í notkun voru mjög óhagkvæmir. Þessar greinar fengu heldur ekki eðlileg fjárfestingalán frá stofnalánadeild landbúnaðarins því landbúnaðargeirinn var á móti þessari framleiðslu. Á síðustu 3-5 árum hefur þetta verið að breytast. Nú hefur átt sér stað geysilega ör þróun í svína- og kjúklingaframleiðslunni. Það varð bylting á síðasta ári þegar leyft var að flytja inn hagkvæmari stofna. Kjúklingaverð hefur lækkað að raunvirði um 30-40% á síðastliðnum 10 árum. Framleiðendurnir þurfa frið í 2-3 ár í viðbót til að ná aukinni hagkvæmni, þeir eru með miklar byrðar á bakinu vegna þess að þeim hefur verið haldið í klafa."
Segja rafmagnsverðr ekki vera skýringuna
Í máli Ólafs Jóns í Morgunblaðinu í gær kom einnig fram að ein skýring á mismunandi kjúklingaverði hér og í nágrannalöndum væri hærra verð á raforku hér á landi. Þorleifur Finnsson, forstöðumaður markaðsmála hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, segir það ólíklegt að rafmagnsverðið hafi veruleg áhrif í þessum efnum. Rafmagnsverð hér á landi sé svipað eða nokkuð hærra en á Norðurlöndum, en lægra en í öllum öðrum Evrópuríkjum.