Ekki horfur á að slysa-
deild verði fullmönnuð
MEIRIHLUTI lækna á slysadeild
Sjúkrahúss Reykjavíkur er hættur störfum. Jón Baldursson yfirlæknir segir að unnið sé að því að fá sérfræðinga til starfa af öðrum deildum, en fyrir liggi að deildin verði ekki fullmönnuð næstu vikurnar. Vandi slysadeildar er djúpstæður m.a. vegna þess að þar hafa í langan tíma verið miklir erfiðleikar við að fá nægilega marga lækna til starfa.
"Það er ljóst að slysadeildin verður ekki fullmönnuð næstu vikur. Ég óttast að þessi kjaradeila dragist á langinn og jafnvel þó að samningar verði samþykktir er verulegt áhyggjuefni ef ungu læknarnir skila sér ekki aftur til starfa," sagði Jón.
Mikið álag fyrir jólin á slysadeild
Sex ungir læknar ætla sér að hætta störfum hjá SHR um áramót og eru þær uppsagnir óháðar óánægju ungra lækna með kjör sín. Aðrir læknar sem sagt hafa upp störfum eru annaðhvort hættir eða hætta um helgina. Til viðbótar útskrifast óvenjufáir læknar úr læknadeild næstu tvö ár. Jón sagði að þetta yki enn á vandann. Uppsagnir ungra lækna kæmu á versta tíma því að álag á slysadeild væri að jafnaði mikið um jólin. Aðsókn í þessari viku hefði ekki verið eins og þegar mest væri að gera og læknum hefði tekist að anna eftirspurn.
Á slysadeild starfa að jafnaði átta aðstoðarlæknar og fimm sérfræðingar, auk eins afleysingalæknis. Jón sagði að allir aðstoðarlæknarnir væru að hætta. Enn væru tveir aðstoðarlæknar við störf, en þeir myndu hætta um áramót.
Kerfið hrunið en lausn ófundin
Sigurður Ásgeir Kristinsson, sérfræðingur á slysadeild, sagði að vandi slysadeildar væri djúpstæður og hann myndi ekki leysast þó að samkomulag tækist við þá lækna sem sagt hafa upp störfum. Slysadeild hefði til margra ára byggt á kerfi ungra lækna. Þetta kerfi hefði verið að láta unda síga á síðustu árum og nú hefði því verið greitt náðarhöggið. Á síðustu árum hefðu verið miklir erfiðleikar við að fá unga lækna til starfa. Ástæðurnar væru m.a. þær að framboð á ungum læknum væri of lítið og álag á starfsfólk deildarinnar væri geysilega mikið.
22 hættu á Landspítala í gær
Tuttugu og tveir aðstoðarlæknar hættu störfum á Landspítalanum í gær og hafa þá alls 25 ungir læknar horfið frá störfum þar. Þorvaldur Veigar Guðmundsson, lækningaforstjóri, segir að uppsagnirnar bitni einkum á lyflæknis- og handlæknisdeildum. Þar verði sérfræðingar að ganga næturvaktir og sinna bráðaþjónustu. Hægt sé að sinna bráðatilfellum með þessum hætti en aðrar læknisaðgerðir, t.d. hjartaþræðingar, sitji á hakanum fyrir vikið og þjónusta göngudeilda skerðist.
Þorvaldur Veigar segir að fyrst um sinn valdi þetta ástand ekki neinni hættu fyrir sjúklinga á spítalanum. "Ef þetta stendur lengi fara málin að vandast og auðvitað er þetta mikil röskun fyrir spítalann," segir hann.