BIRGIR Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogsbæjar, segist vera óhress með það hvernig tillögum breska ráðgjafafyrirtækis hafi verið slegið upp og látið í það skína að í tillögunum felist einhver heilagur sannleikur varðandi skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu.
Skipulagsstjóri Kópavogs um tillögur bresks ráðgjafafyrirtækis

Ekki ný hugsun

í aðferðafræði

Skipulagsstjóri Kópavogs segir að það sé alls ekki ný hugsun í aðferðafræði varðandi skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu sem felist í tillögum bresks ráðgjafafyrirtækis. Svæðisskipulag fyrir allt höfðuðborgarsvæðið hafi síðast verið gert fyrir um tíu árum.

BIRGIR Sigurðsson, skipu lagsstjóri Kópavogsbæjar, segist vera óhress með það hvernig tillögum breska ráðgjafafyrirtækis hafi verið slegið upp og látið í það skína að í tillögunum felist einhver heilagur sannleikur varðandi skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Það væri hins vegar auðvitað af hinu góða að unnin væri samræmd stefna fyrir allt höfuðborgarsvæðið í sem flestum málaflokkum, en það væri svo annað mál hvernig sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tækju á sjálfu svæðisskipulaginu þegar kæmi að því að framkvæma það og vinna eftir því.

Slíkt skipulag tæki á þeim þáttum sem sveitarfélögin hafa verið með, t.d. uppbyggingu byggðar, lóðaframboði og uppbyggingu á verslunarkjörnum. Þannig væri til dæmis hugmyndin um mikla verslunarmiðstöð í Kópavogsdal áratugagömul, og fyrirhuguð verslunar- og þjónustumiðstöð í Smárahvammslandi ætti því ekki að koma neinum á óvart.

Á blaðamannafundi í fyrradag, þar sem tillögur breska ráðgjafafyrirtækisins voru kynntar sagði Richard Abrahams, einn forsvarsmanna fyrirtækisins, að verslunar- og þjónustumiðstöð í Smárahvammslandi myndi draga verulega úr verslun og þjónustu í miðborginni og koma illa niður á verslunum í Kringlunni og Skeifunni og líklega ganga af verslun í Hafnarfirði dauðri. Smárinn væri lýsandi dæmi um vankantana í íslenskum skipulagsmálum og dæmi um það sem gerðist þegar engar reglur væru til að fara eftir.

Birgir sagði að það kæmi sér verulega á óvart að menn skuli núna vera að vakna allt í einu upp varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir í Smárahvammslandinu.

"Ég er hér með teikningar í tveimur útgáfum sem Abrahams vann sjálfur á árunum upp úr 1990 að stórri verslunarmiðstöð á þessari sömu lóð. Það eru skrítin orð sem höfð eru eftir honum um að það muni einhverjir líða fyrir þessa stóru verslunarmiðstöð sem nú er á dagskrá hér í Kópavogi, því á sama tíma er hann að leggja til stækkun á Kringlunni um einhverja 20 þúsund fermetra. Hann teiknaði Kringluna á sínum tíma og þá voru menn ekki að spyrja um hvort Skeifan eða Laugavegurinn liði fyrir Kringluna, og ekki eru menn að velta því fyrir sér núna hvort einhverjir aðrir verslunarkjarnar muni líða fyrir það ef Kringlan verði stækkuð" sagði Birgir.

Hefði veruleg áhrif á smásölumarkaðinn

Einar I. Halldórsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Kringlunnar, sagði að ef verslunar- og þjónustumiðstöð í Smáranum yrði að veruleika þá myndi það hljóta að hafa veruleg áhrif á smásölumarkaðinn þar sem um væri að ræða stærra hús en allar byggingar Kringlunnar til samans.

"Ég sé ekki markað fyrir þessa aukningu í verslun á næstu árum, og þótt menn geti reiknað með því að smásölumarkaðurinn geti stækkað eitthvað þá stækkar hann ekki til þess að taka við þessari gífurlegu aukningu. Þannig að ef þessir menn eru að hætta eigin fé þá eru þeir mjög hugaðir," sagði Einar.

Aðspurður sagði hann að verslunarmiðstöð í Smárahvammslandi hlyti að hafa áhrif á verslun í Kringlunni eins og hjá öðrum og einhvers staðar hlyti að láta undan. Kringlan væri hins vegar betur undir þessa samkeppni búin en flestir aðrir þar sem markaðsstaða hennar væri mjög góð og mikil samheldni meðal eigenda hennar.

Einar sagði að á sínum tíma hefðu Hagkaup og BYKO verið með umrædda lóð í Smárahvammslandi og Richard Abrahams hefði gert frumathuganir varðandi uppbyggingu þar, en hætt hefði verið við þær framkvæmdir þar sem ekki hefði verið talinn nægur markaður og lóðinni því verið skilað.

Byggist á allt öðrum forsendum

Friðrik Guðmundsson, framkvæmdastjóri verslana- og þjónustukjarnans Fjarðar í miðbæ Hafnarfjarðar, sagðist telja það mjög gott mál ef umrædd miðstöð yrði byggð í Smárahvammslandi og verslun í Hafnarfirði myndi ekki stafa nein hætta af því.

"Þeir eru að horfa 10-15 ár fram í tímann þar sem meginhluti byggðarinnar færist hingað uppeftir. Verslunin hér í dag er fyrst og fremst hverfisverslun þar sem fólk er að versla dags daglega, en það fer kannski í Bónus einu sinni í viku en verslar svo hér þess á milli. Það er fjarri lagi að ný verslunarmiðstöð í Smárahvammslandi myndi drepa niður verslun í Hafnarfirði því þetta byggist upp á allt öðrum forsendum og er í raun og veru alveg eins og svart og hvítt," sagði Friðrik.

Skiptar skoðanir í Mjódd

Konráð Baldvinsson, framkvæmdastjóri Framfarafélagsins í Mjódd, sagði að meðal kaupmanna í Mjódd væru skiptar skoðanir varðandi fyrirhugaða verslunarmiðstöð í Smárahvammslandi. Sumir teldu hana verða til þess að draga eitthvað úr verslun í Mjódd fyrst í stað, en aðrir teldu hins vegar að viðskiptin þar myndu aukast í kjölfarið.

"Við erum ákaflega bjartsýnir á að halda okkar hlut, en síðan við byggðum yfir göngugötuna fyrir tveimur árum hefur orðið hér mikil aukning og það er mikil ásókn fyrirtækja að komast hingað í Mjóddina. En auðvitað líst okkur ekkert á að það skuli verið að byggja alla þessa viðbót vegna þess að það er engin þörf fyrir þetta, og ég held að menn séu hugsanlega að skjóta sig í löppina með því að vera að þessu. En það er lítið annað hægt að gera í þessu annað en að reyna að standa sig enn betur í samkeppninni," sagði Konráð.

Kringlan betur búin undir samkeppni en flestir aðrir

Hafnarfirði stafar ekki hætta af Smáranum

GERT er ráð fyrir að fyrirhuguð verslunar- og þjónustumiðstöð í Smárahvammslandi verði 45 þúsund fermetrar og rúmi 80-100 verslanir.