VERSLUNARMIÐSTÖÐIN Kópavogs-Kjarninn við Engihjalla er til sölu. Ásett verð er 250 milljónir króna. Verslunarmiðstöðin er á tveimur hæðum og rúmlega þrjú þúsund fermetrar að stærð. Byggingin er rúmlega tuttugu ára gömul en töluverðar endurbætur voru gerðar á neðri hæð hennar fyrir skömmu, sem fólust í því að henni var skipt í göngugötu og nokkur verslunarrými.
ÐKópavogs-Kjarninn
við Engihjalla til sölu VERSLUNARMIÐSTÖÐIN Kópavogs-Kjarninn við Engihjalla er til sölu. Ásett verð er 250 milljónir króna.
Verslunarmiðstöðin er á tveimur hæðum og rúmlega þrjú þúsund fermetrar að stærð. Byggingin er rúmlega tuttugu ára gömul en töluverðar endurbætur voru gerðar á neðri hæð hennar fyrir skömmu, sem fólust í því að henni var skipt í göngugötu og nokkur verslunarrými. Eignarhaldsfélagið Fofnir ehf. á stærstan hluta byggingarinnar en eigandi þess er Róbert Árni Hreiðarsson hrl.
Traustir leigjendur
Jón G. Sandholt, hjá fasteignasölunni Stóreign, segir að eignin sé verðlögð á 250 milljónir króna. Hægt sé að fá eignina keypta í heilu lagi eða einingum. "Stór hluti verslunarmiðstöðvarinnar er í traustri leigu. Þar er t.d. matvöruverslunin 10-11, apótek, pizzastaður, myndbandsleiga og bakarí. Leigutekjur eru góðar og hagstæð langtímalán hvíla á eigninni. Þá er um 800 fermetra rými laust á jarðhæðinni sem hentar til margvíslegra nota.
Að undanförnu hefur verslunum fjölgað töluvert í Kópavogi og eins og komið hefur fram eru mikil áform uppi um byggingu stórrar verslunarmiðstöðvar í Smárahvammslandi, í næsta nágrenni við Engihjalla. Jón segir að sölu Kópavogs-Kjarnans nú megi ekki rekja til stóraukins framboðs á verslunarrými í bæjarfélaginu. "Kjarninn stendur sterkt að vígi enda er hann í miðju fjölmenns hverfis. Um átta þúsund manns eru í göngufæri við verslunarmiðstöðina og vita að þar geta þeir gengið að fjölbreyttri þjónustu á einum stað," segir Jón.
Morgunblaðið/Ásdís KÓPAVOGS-KJARNINN við Engihjalla er til sölu fyrir 250 milljónir króna.