tekjuskattslækkun
Styrkir gjald-
miðla í Asíu
Tókýó, Singapore. Reuters.
MEIRI ró færðist yfir fjármálamarkaði í Asíu í gær eftir óvæntar
og ítrekaðar aðgerðir japanska seðlabankans til styrktar jeninu og frétta af fyrirhugaðri tekjuskattslækkun í Japan.
Japanski seðlabankinn seldi bandaríska dollara í stórum stíl og það, ásamt frétt af fyrirhugaðri tekjuskattslækkun stjórnar Ryutaros Hashimotos, varð til þess að gengi dollars lækkaði úr um 131 jeni í um 125 jen.
Gjaldmiðlar margra ríkja Suðaustur-Asíu styrktust einnig vegna aðgerða japanska seðlabankans og mikillar dollarasölu bæði í Singapore og Filippseyjum.
Stjórn Hashimoto hefur ákveðið að freista þess að hleypa nýju lífi í japanskt efnahagslíf með sérstakri skattalækkun, sem kosta mun ríkissjóð jafnvirði 15,4 milljarða dollara.
Ákvörðunin kom í opna skjöldu en daginn áður hafði stjórnin birt áform um að lækka fyrirtækjaskatta um jafnvirði 6,54 milljarða dollara. Hagfræðingar gagnrýndu þá ákvörðun og bar saman um að hún myndi ekki duga til þess að rjúfa stöðnun í efnahagslífi landsins.
Tekjuskattslækkunin miðast við fjárlagaárið sem lauk 31. mars sl. og felst í því að launþegum verður endurgreiddur skattur sem þegar hefur verið tekinn af þeim. Nemur lækkunin að jafnaði um 15% á mann.
Sérfræðingar í efnahagsmálum drógu í efa að tekjuskattslækkunin leiddi til varanlegs efnahagsbata, sögðust fremur búast við því að skattalækkunin leiddi til aukins sparnaðar en aukinnar neyslu.
Bill Clinton Bandaríkjaforseti fagnaði hins vegar ákvörðun Japana mjög, sagði hana geta leitt til aukins hagvaxtar og þar með stöðvað efnahagskreppu í Asíu. Strax eftir yfirlýsingu Hashimoto snarhækkuðu hlutabréf og önnur verðbréf á mörkuðum í Tókýó.
Reuters KAUPMENN á Filippseyjum hafa neyðst til þess að lækka vöruverð til að glæða jólaverslunina vegna gengislækkunar og efnahagskreppu. Var myndin tekin í Maníla í gær.