Banaslys í
umferðinni
í Reykjavík
BANASLYS varð í umferðinni í
Reykjavík í gærmorgun er sjötíu og þriggja ára gömul kona varð fyrir sendibíl. Var hún flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og lést þar nokkru síðar af völdum áverka.
Lögreglunni í Reykjavík var tilkynnt um slysið kl. 8.08 í gærmorgun. Sendibíl var ekið eftir Suðurgötu í norðurátt og á kaflanum milli Háskólans og Þjóðminjasafnsins lendir hann á konunni. Hún er talin hafa verið á leið austur yfir götuna. Dimmt var en þurrt í Reykjavík í gærmorgun.
Konan hlaut mikla áverka og var flutt í skyndingu á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem hún fór strax í aðgerð en hún lést nokkru síðar af völdum áverkanna. Lögreglan í Reykjavík biður þá sem kynnu að hafa orðið vitni að slysinu að gefa sig fram.
Ekki er hægt að gefa upp nafn hinnar látnu að svo stöddu.