Héðinn Gilsson handknattleiksmaður skrifaði í gærkvöldi undir samning við 1. deildarliðið Bayer Dormagen og leikur sinn fyrsta leik með félaginu á heimavelli gegn Wallau Massenheim á laugardaginn. Samningur Héðins við Dormagen er út yfirstandandi keppnistímabil, en hann hefur sl. hálft annað ár leikið með Fredenbeck sem sl. vor féll úr 1. deildinni.
HANDKNATTLEIKUR / ÞÝSKALAND

Héðinn Gilsson til



liðs við Dormagen

Héðinn Gilsson handknattleiks maður skrifaði í gærkvöldi undir samning við 1. deildarliðið Bayer Dormagen og leikur sinn fyrsta leik með félaginu á heimavelli gegn Wallau Massenheim á laugardaginn. Samningur Héðins við Dormagen er út yfirstandandi keppnistímabil, en hann hefur sl. hálft annað ár leikið með Fredenbeck sem sl. vor féll úr 1. deildinni. Þar með verður Héðinn annar Íslendingurinn í herbúðum Dormagen, en fyrir er Róbert Sighvatsson.

"Ég er hálf feginn að losna frá Fredenbeck, okkur hefur gengið illa og andinn í kringum liðið er slakur," sagði Héðinn í samtali við Morgunblaðið í gær. "Mér stóð til boða að gera samning til vorsins 1999 en ég kaus að binda mig ekki lengur en fram á næsta vor þar sem staðan er óljós hjá Dormagen, en félagið er í neðsta sæti um þessar mundir."

Forráðamenn Dormagen hafa um tíma verið að leita sér að liðsstyrk til þess að freista þess að lyfta liðinu ofar í deildinni. Kaupin á Héðni eru einn liðurinn í því en reiknað er með að innan tíðar fái félagið einnig nýjan leikstjórnanda fari lukkuhjólið ekki að snúast félaginu í vil.

Héðinn sagði að mikil áskorun fælist í því að koma til liðs við Dormagen á þessum tíma auk þess sem það væri kærkomið að leika á ný í 1. deild. Þá spillti ekki fyrir að hjá liðinu væri Róbert landi sinn. "Þetta er mikil áskorun og ég vona að allt gangi upp hjá okkur."

Hann sagði ennfremur að illa hefði gengið hjá Fredenbeck í vetur, félagið væri í 10. sæti norðurhluta 2. deildar. Hann hefði leikið alla leiki liðsins fyrir utan skamman tíma sem hann hefði verið frá vegna fingurbrots. "Mér hefur gengið upp og ofan, verið með fimm til tíu mörk í leik."

HÉÐINN Gilsson leikur við hlið Róberts Sighvatssonar hjá Bayer Dormagen.