HANS KR.
EYJÓLFSSON
LÁTINN er í Reykjavík Hans Kr.
Eyjólfsson, fyrrverandi bakarameistari á Vesturgötu og síðar móttökustjóri í Stjórnarráði Íslands.
Hans var fæddur í Bjarnareyjum á Breiðafirði 15. október 1904. Foreldrar hans voru Guðrún Hansdóttir og Eyjólfur Eyjólfsson. Hálfs árs gamall var hann tekinn í fóstur af Margréti Magnúsdóttur og Sigurvini Hanssyni, skipstjóra á Ísafirði. Hjá þeim dvaldist hann til fjögurra ára aldurs en fluttist þá til Reykjavíkur með fóstru sinni til dóttur hennar, Steinunnar Sigurðardóttur, sem gift var Sveini Hjartarsyni bakarameistara.
Þrettán ára hóf Hans störf í bakaríi Sveins og nam bakaraiðn. Að loknu námi í Iðnskóla Reykjavíkur fór hann til framhaldsnáms í kökugerð í Kaupmannahöfn og dvaldist þar í þrjú ár. Að námi loknu kom hann aftur til starfa í Sveinsbakaríi og starfaði þar við kökugerð.
Eftir lát Sveins 1944 stjórnaði Hans bakaríinu. Eftir að hann hætti þeim rekstri gerðist hann mótttökustjóri í forsætisráðuneytinu 65 ára gamall. Hann hætti ekki störfum sjötugur, eins og venja er, heldur var starfslokum hans oftlega frestað og jafnvel gerðar sérstakar bókanir í ríkisstjórn um að hann mætti halda áfram starfi sínu eins lengi og heilsan leyfði. Hann hætti störfum í Stjórnarráðinu árið 1990, 86 ára gamall. Hafði hann þá starfað með tveimur forsetum og átta forsætisráðherrum.
Hans kvæntist hinn 24. maí 1930 Ólöfu Jónsdóttur frá Ísafirði og eignuðust þau þrjú börn. Þau hjón fluttust á Droplaugarstaði í Reykjavík árið 1991. Ólöf lézt fyrir rúmum þremur árum.