Ráðamenn sæki námskeið um jafnrétti GUÐNÝ Guðbjörnsdóttir, þingmaður Kvennalistans, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um jafnréttisfræðslu fyrir æðstu ráðamenn.
Meginefni tillögunnar er að Alþingi álykti að fela félagsmálaráðherra að móta stefnu um aðgerðir sem tryggi að æðstu ráðamenn
þjóðarinnar hafi þekkingu á ólíkri stöðu kynjanna í þjóðfélaginu almennt og á sínu sviði sérstaklega. Í því skyni verði tekið saman vandað námsefni og haldin námskeið sem ráðamönnum verði gert að sækja. Tryggt verði jafnframt að þekkingunni verði haldið við með eftirliti og aðhaldi og með því að halda námskeið með reglulegu millibili.
Í greinargerð tillögunnar segir m.a. að markmiðið með framangreindum jafnréttisaðgerðum sé að skapa samfélag þar sem bæði kynin búi við sömu möguleika, réttindi og skyldur á öllum sviðum samfélagsins. "Til þess að þetta markmið náist, þarf að beita kynjaðri hugsun við alla stefnumörkun og aðgerðir framkvæmdavaldsins, Alþingis, fyrirtækja og stofnana."