Blair styður Robinson
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í gær að hann
stæði staðfastur að baki Geoffrey Robinson, ráðherra í fjármálaráðuneytinu.
Stjórnarandstaðan hefur að undanförnu gagnrýnt Robinson harkalega fyrir fjárfestingar hans í erlendum fjárfestingasjóðum og ítrekað krafist afsagnar hans. William Hague, formaður Íhaldsflokksins, sagði í gær að ráðherrann hefði reynt að komast hjá skattlagningu og að hann gæti ekki unnið ríkinu af heilindum þar sem hagsmunir þess stönguðust á við persónulega hagsmuni hans.
Blair heldur því hins vegar fram að Robinson hafi ekki aðhafst neitt ósæmilegt.