Sinclair
í vanda
FRANK Sinclair leikmanni
Chelsea er vandi á höndum þessa dagana því honum hefur verið gerð grein fyrir að taki hann þátt í undirbúningi landsliðs Jamaíku fyrir heimsmeistarakeppnina í Frakklandi geti hann átt á hættu að missa sæti sitt í liði Chelsea.
Einn liður í undirbúningi landsliðs Jamaíku er að taka þátt í mótum í Brasilíu, S-Afríku og í Japan í janúar, febrúar og mars. Á sama tíma í janúar mætir Chelsea Ipswich í deildabikarnum og Arsenal í deildinni. Þá koma leikir í Evrópukeppni bikarhafa einnig við sögu á sama tíma og landsliðið er að keppa. Sinclair á hins vegar ekki gott með að neita löndum sínum, en á sama tíma hefur Ruud Gullit gert honum grein fyrir að ekki sé sjálfgefið að hann haldi sæti sínu í liði Chelsea ætli hann að vera í undirbúningi landsliðsins af fullum krafti.