DEILDARFUNDUR læknadeildar Háskóla Íslands mælti í gær með Elíasi Ólafssyni í starf prófessors í taugasjúkdómafræði. Hann verður jafnframt yfirlæknir taugalækningadeildar Landspítalans. Kosið var á milli þriggja umsækjenda um starfið, Elíasar, dr. Finnboga Jakobssonar og Sigurlaugar Sveinbjörnsdóttur og þurfti þrjár atkvæðagreiðslur til að fá niðurstöðu og tvo deildarfundi.
Mælt með Elíasi Ólafssyni sem prófessor í taugasjúkdómafræði
Valinn í þriðjuatkvæðagreiðslu
DEILDARFUNDUR læknadeildar Háskóla Íslands mælti í gær með Elíasi Ólafssyni í starf prófessors í taugasjúkdómafræði. Hann verður jafnframt yfirlæknir taugalækningadeildar Landspítalans. Kosið var á milli þriggja umsækjenda um starfið, Elíasar, dr. Finnboga Jakobssonar og Sigurlaugar Sveinbjörnsdóttur og þurfti þrjár atkvæðagreiðslur til að fá niðurstöðu og tvo deildarfundi.
Fimm læknar sóttu um stöðuna en niðurstaða dómnefndar var að aðeins þrír væru hæfir til að gegna stöðunni og af þeim væri Elías hæfastur. Hart var deilt um þá niðurstöðu á deildarfundi 12. nóvember síðastliðinn, meðal annars um hver væri hæfastur, hugsanlegan formgalla á störfum matsnefndar og að gild rök skorti fyrir neikvæðum hæfnisdómi yfir dr. Martin Grabowski og dr. Páli Ingvarssyni meðal annars vegna þess að bæði Elías og Sigurlaug eiga eftir að ljúka doktorsprófi.
Borin var fram tillaga á fundinum í nóvember um nýtt mat á umsækjendum en í ljós kom að deildarfundur hafði ekki vald til að krefjast þess. Hann varð að ganga til atkvæða á grundvelli niðurstöðu matsnefndar og vegna þess að rektor Háskólans hafði ekki gert athugasemd við það. Ráðstöfun starfsins var svo frestað til næsta fundar samkvæmt ósk deildarfulltrúa.
Erfiður og langur deildarfundur
Einar Stefánsson, deildarforseti læknadeildar, segir að á fundinum í gær hafi fyrst verið kosið á milli Elíasar, Finnboga og Sigurlaugar og hafi verið mjótt á mununum, Elías fékk 17 atkvæði, Finnbogi 16 og Sigurlaug 14.
Kosið var svo milli tveggja efstu en of fá atkvæði voru á milli Elíasar og Finnboga og einnig skiluðu of margir auðum seðli til að kosningin teldist gild, og því þurfti að kjósa í þriðja sinn. Elías hlaut þá 27 atkvæði og Finnbogi 17 en 6 atkvæðaseðlar voru auðir og 1 ógildur.
Einar segir fundinn hafa verið erfiðan og löng umræða verið um málið "enda hafi verið mikill jöfnuður með kandídötum," segir hann "og nokkur vandi að velja á milli manna. En meirihluti var á sömu skoðun og dómnefndin."
Störf dómnefndar voru einnig rædd á fundinum og skýrði nefndin niðurstöðu sína, hins vegar er hún bundin trúnaði og getur ekki sagt opinberlega frá forsendum matsins, að sögn Einars.
Deildarfundur skilar nú niðurstöðu sinni til rektors Háskóla Íslands og væntanlega verður Elías Ólafsson prófessor frá 1. janúar 1998 og tekur við af dr. Gunnari Guðmundssyni prófessor sem hættir sökum aldurs.
Elías
Ólafsson
Finnbogi
Jakobsson
Sigurlaug
Sveinbjörnsdóttir