JEVGENÍ Prímakov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að "yfirgnæfandi meirihluti" mannkynsins væri andvígur því að gripið yrði til hernaðaraðgerða gegn Írökum torveldi þeir leit eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna að gjöreyðingarvopnum í Írak.
Prímakov gagnrýnir stefnu Bandaríkjastjórnar

Segir heimsbyggðina

á móti árásum á Írak

Brussel, Washington. Reuters.

JEVGENÍ Prímakov, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að "yfirgnæfandi meirihluti" mannkynsins væri andvígur því að gripið yrði til hernaðaraðgerða gegn Írökum torveldi þeir leit eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna að gjöreyðingarvopnum í Írak.

Prímakov var að svara ummælum Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem lét þau orð falla að reyna bæri áfram að knýja Íraka til samstarfs við eftirlitsmennina með friðsamlegum hætti en ekki væri hægt að útiloka að gripið yrði til hernaðaraðgerða.

"Við erum andvígir því að hervaldi verði beitt," sagði Prímakov. "Ég tel að í heiminum styðji mikill meirihluti þá afstöðu, yfirgnæfandi meirihluti."

Clinton harðorður

Bill Clinton Bandaríkjaforseti var harðorður í garð Íraka eftir viðræður Richards Butlers, yfirmanns eftirlitssveita SÞ, við íraska ráðamenn, sem sögðu að eftirlitsmennirnir myndu "aldrei" fá aðgang að forsetahöllum í leit að efnavopnum. Sagði Clinton Bandaríkjamenn verða að vera ákveðna gagnvart Írökum, þar sem þeir hefðu ekki orðið við alþjóðlegum skuldbindingum sínum.

Er Clinton var spurður hvort hann teldi Saddam Hussein, leiðtoga Íraks, ekki heilan á geðsmunum, sagði Clinton: "Ef hann er [brjálaður], þá er hann snjall brjálæðingur . . . Stundum gerir hann þó eitthvað sem virðist brjálæðislega heimskulegt."

Clinton kvaðst hvorki útiloka neinar aðgerðir gegn Írökum né að bandarísk stjórnvöld kynnu að grípa til frekari aðgerða til að þvinga Íraka til að veita vopnaeftirliti SÞ aðgang að forsetahöllum Íraka. Brást talsmaður íraska upplýsingaráðuneytisins ókvæða við þessari yfirlýsingu í gær og sagði Bandaríkjamenn ekki njóta nægilegs stuðnings til þess að grípa til aðgerða, hvorki í öryggisráði SÞ né í Evrópu. Að því er segir í The New York Times kann þetta að vera rétt, því í öryggisráðinu gæti aukinna áhyggna vegna vannæringar og ömurlegra aðstæðna írösku þjóðarinnar. Séu þessar áhyggjur ekki minni en vegna efnavopnaframleiðslu Íraka.