Tekjur aukast um
854 milljónir
FRUMVARP til fjáraukalaga fyrir
árið 1997 var samþykkt sem lög frá Alþingi í gær, en í því er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 854 milljónir króna frá fyrri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins. Ber þar hæst tekjur vegna skatta á vöru og þjónustu, en þær tekjur aukast um 753 milljónir króna frá fyrri áætlun.
Fyrir þriðju umræðu um fjáraukalög, sem fram fór á þriðjudagskvöld, gerði meirihluti fjárlaganefndar nokkrar breytingatillögur á frumvarpinu, en þær nema alls 353,9 milljónum króna til lækkunar á gjaldahlið. Þessar tillögur fela í sér 480 milljóna króna lækkun á vaxtagreiðslum ríkissjóðs og um 127 milljóna króna hækkun framlaga til ýmissa málaflokka. Þar af fara um 116 milljónir króna til Vegagerðarinnar, sem, samkvæmt skýringum meirihlutans, er til samræmis við hækkun markaðra tekna til vegamála sem áætlað er að falli til á þessu ári. Þessar breytingatillögur meirihlutans voru samþykktar í atkvæðagreiðslunni í gær.
Gagnrýndi greiðslur til sendiráða
Við atkvæðagreiðslu fjáraukalaganna gerði Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki jafnaðarmanna, grein fyrir atkvæði sínu. Gagnrýndi hann að í fjáraukalögunum væri 391 milljón króna veitt til bygginga og endurbóta á sendiráðum "úti í heimi" á sama tíma og ámóta upphæð væri veitt til þess að styrkja heilbrigðiskerfið hér á landi. Sagðist hann af þeim sökum greiða atkvæði gegn fjáraukalögunum. Þrír aðrir stjórnarandstæðingar greiddu einnig atkvæði gegn frumvarpinu, en aðrir stjórnarandstæðingar sátu hjá.