17 ára piltur dæmd-
ur fyrir 32 afbrot
Í hópi sexmenninga sem fá dóm
fyrir fjölda afbrota
SEX ungir menn voru í gær dæmdir í tveggja til sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjölda afbrota, sem þeir frömdu ýmist einir sér eða tveir eða fleiri í sameiningu. Mennirnir eru fæddir á árunum 1975 til 1980. Sá yngsti, sem nú er 17 ára, var sakfelldur fyrir 32 afbrot, sem hann framdi flest er hann var enn sextán ára að aldri. Hann fékk jafnframt þyngsta dóminn, sjö mánaða fangelsi, en refsingin er skilorðsbundin í þrjú ár.
Pilturinn, sem um ræðir, var ákærður fyrir fjölda innbrota í fyrirtæki og bifreiðar, að hafa fengið vörur afhentar í verzlunum og síðan ekið á braut án þess að borga og fyrir fjölda umferðarlagabrota. Meðal annars hafði lögregla afskipti af honum sextán sinnum er hann ók bifreiðum um götur Reykjavíkur án ökuréttinda. Þá var honum gefið að sök að hafa átta sinnum ekið bifreiðum með röngum skráningarmerkjum.
Skaðabótakröfur fyrirtækja og einstaklinga á hendur piltinum námu tæpum tveimur milljónum króna.
Í reiðileysi og án afskipta fullorðinna
Í dómi Héraðsdóms, sem Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp, kemur fram að pilturinn hafi ekki sætt refsingu áður og aðeins verið sextán ára gamall er hann framdi afbrotin. Þá hafi komið fram í umfjöllun verjanda piltsins að hann hafi á þeim tíma, er hann framdi afbrotin, verið "í algjöru reiðileysi á heimili sínu, þar sem hvorki foreldra hans naut við né annarra fullorðinna."
Pilturinn játaði brot sín greiðlega og samþykkti að greiða þær skaðabætur, sem fram komu í málinu. Héraðsdómi þykir hins vegar þurfa að líta til þess að brot hans séu mörg og sum stórfelld, tjón af þeirra völdum hafi verið talsvert og hluti þýfisins ekki komizt til skila. Hins vegar sé ákærði ungur að árum og hafi ekki sætt refsingu áður. Hæfileg refsing þykir því sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár.
Tveggja mánaða refsing fósturbróður piltsins, sem einnig er sautján ára, var jafnframt skilorðsbundin enda hefur hann ekki sætt refsingu áður. Refsing tveggja annarra af sexmenningunum var skilorðsbundin en tveir fengu óskilorðsbundna refsingu.