MESUT Yilmaz, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í gær að Tyrkir myndu draga til baka aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu, ESB, yrðu þeir ekki settir í hóp tilvonandi aðildarríkja sambandsins. "Yilmaz forsætisráðherra tilkynnti að Tyrkland myndi draga beiðni sína um fulla aðild til baka ef Evrópusambandið breytir ekki afstöðu sinni,

Yilmaz hótar ESB

Ankara. Reuters.

MESUT Yilmaz, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í gær að Tyrkir myndu draga til baka aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu, ESB, yrðu þeir ekki settir í hóp tilvonandi aðildarríkja sambandsins.

"Yilmaz forsætisráðherra tilkynnti að Tyrkland myndi draga beiðni sína um fulla aðild til baka ef Evrópusambandið breytir ekki afstöðu sinni," sagði tyrkneska ríkisfréttastofan Anatolian eftir að Yilmaz millilenti í Brussel í gær á leiðinni í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna.

Leiðtogar ESB sömdu um síðustu helgi um að bjóða sex ríkjum að hefja aðildarviðræður af alvöru í vor. Þá var öðrum fimm ríkjum gefinn kostur á að bætast í þann hóp að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tyrkland, sem sótti fyrst um aðild að sambandinu fyrir 34 árum, er hins vegar í hvorugum þessara hópa en var boðið að taka þátt í ráðstefnu tilvonandi aðildarríkja sem halda á samhliða aðildarviðræðuferlinu. Slíkri þátttöku hafnaði Tyrklandsstjórn hins vegar strax og Yilmaz bætti um betur í gær með því að lýsa því yfir að afstaða stjórnarinnar myndi ekki breytast neitt fyrr en Tyrklandi yrði bætt á listann yfir tilvonandi aðildarríki til jafns við hin ellefu sem fyrir eru á honum.

Yilmaz tók því að sögn Anatolian sérstaklega illa að með boðinu á ráðstefnu þessa fylgdi listi yfir skilyrði fyrir þátttöku Tyrklands í stækkunarferlinu. Á listanum voru m.a. skilyrði um framfarir í mannúðarmálum og bætt samskipti við Grikkland.