VERÐBRÉFAÞING Íslands og bankastjórn Seðlabanka Íslands hafa sett á fót sérstakan vinnuhóp sem móta á starfsreglur er lúta að upplýsingagjöf Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis og Lánasýslu ríkisins, til aðila á verðbréfamarkaði.
ÐVinnuhópur um

upplýsingaskyldu

VERÐBRÉFAÞING Íslands og bankastjórn Seðlabanka Íslands hafa sett á fót sérstakan vinnuhóp sem móta á starfsreglur er lúta að upplýsingagjöf Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytis og Lánasýslu ríkisins, til aðila á verðbréfamarkaði.

Þetta varð niðurstaðan á fundi sem Verðbréfaþing átti með bankastjórn Seðlabanka Íslands í kjölfar þess að nokkrum aðilum á verðbréfamarkaði bárust ekki upplýsingar um 5 milljarða króna útboð Seðlabankans á endurhverfum verðbréfakaupum fyrr en 8 mínútum eftir að viðskipti hófust á Verðbréfaþingi sl. mánudag og u.þ.b. 20-30 mínútum eftir að viðskiptabönkum og sparisjóðum hafði verið send tilkynning þessa efnis.

Stefán Halldórsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings Íslands, segir að í kjölfar þessa hafi þingið óskað eftir umræddum fundi með bankastjórninni og hafi þetta orðið niðurstaða hans. Sérstaklega verði horft til þarfa markaðarins um upplýsingar og að jafnræðis verði gætt.