Skiptar skoðanir innan
sjávarútvegsnefndar
Í NEFNDARÁLITI meirihluta sjávarútvegsnefndar um frumvarp um
breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem m.a. felur í sér framsal veiðiheimilda smábáta, segir að vel hafi tekist að aðlaga þann flota sem stundar veiðar með þorskaflahámarki veiðiheimildum sem þeim flota eru takmarkaðar. Hins vegar hafi komið í ljós visst misræmi milli sóknarmöguleika innan sóknardagahópanna og þess afla sem þeim er ætlaður. Frumvarpinu sé ætlað að auðvelda þessum hópum að laga rekstur sinn að þeim þorskveiðiheimildum sem þeim eru ætlaðar.
Í áliti minnihluta nefndarinnar segir að hann hafi miklar efasemdir um þá braut sem hér sé verið að leggja út á. Eitt helsta gagnrýnisatriðið á aflamarkskerfið sjálft hafi verið framsal veiðiheimilda og þó ekki síður leigan og ýmislegt sem henni tengist. Aðalefnisbreytingar frumvarpsins feli í sér að opnaðar verði bæði framsals- og takmarkaðar leiguheimildir innan þess hóps smábátaútgerðarinnar sem sækir samkvæmt svokölluðu þorskaflahámarki.
Reglur um endurnýjun rýmkaðar
Þá hefur meirihluti sjávarútvegsnefndar mælt með samþykkt þess hluta frumvarpsins sem felur í sér að reglur um endurnýjun fiskiskipa verði rýmkaðar og samræmdar. Meirihluti nefndarinnar leggur þó til tvær efnislegar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að fellt verði niður skilyrði um að skip hafi haft leyfi til að veiða með aflamarki í a.m.k. sjö ár áður en þau geta nýtt sér endurnýjunarreglur þær sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þess í stað er mælt fyrir um það að eigandi skips geti einungis nýtt sér stækkunar- eða breytingarreglur þær sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu einu sinni á hverjum sjö árum. Hins vegar leggur meirihlutinn til að sjávarútvegsráðherra skuli í reglugerð mæla fyrir um hvernig rúmtala skips skuli reiknuð.
Í áliti minnihlutans segir að þrátt fyrir að reglurnar séu að nokkru leyti rýmkaðar með frumvarpinu verði áfram við lýði verulegar hindranir hvað varðar möguleika útgerðarmanna á að endurnýja eða breyta skipum sínum. Minnihlutinn telur að veiðitakmörkun aflamarkskerfisins sé, ásamt öðrum ráðstöfunum nægjanleg til þess að stjórna veiðum í íslensku efnahagslögsögunni. Ekki standi rök til þess að stjórnvöld reki samhliða því kerfi annað sem kveður á um að útgerðarmaður, sem vill stækka skip sitt með endurnýjun eða breytingu, þurfi að fjárfesta í öðrum skipum sem nemur þeim rúmmetrafjölda sem hann ætlar að stækka um og úrelda þau úr flotanum.
Frumvarpinu vísað til þriðju umræðu
Önnur umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi á þriðjudagskvöld, en í gær fór fram atkvæðagreiðsla um hvort vísa ætti því til þriðju umræðu. Við atkvæðagreiðsluna greiddu tveir þingmenn stjórnarflokkanna atkvæði gegn c-lið fyrstu greinar frumvarpsins, þar sem segir m.a. að heimilt sé að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Guðjón Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu að framsal aflaheimilda væri helsti ljóðurinn á annars ágætu fiskveiðistjórnkerfi Íslendinga. "Ég er andvígur því að innleiða kvótabraskið í smábátakerfið og greiði því atkvæði gegnum þessum lið fyrstu greinar."
Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokks, gerði einnig grein fyrir atkvæði sínu og sagði að með lögfestingu þessa ákvæðis væri verið að gera grundvallarbreytingu á stjórn fiskveiða hvað varðaði smábáta sem gerðir væru út með þorskaflahámarki. "Ég tel að áhrif þessara breytinga verði þau að smábátaútgerð muni dragast verulega saman víða um land meðal annars á stöðum þar sem smábátaútgerð hefur borið uppi atvinnulíf," sagði hann meðal annars. Sagðist hann því greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.
Auk stjórnarþingmannanna tveggja greiddi 21 þingmaður stjórnarandstæðinga atkvæði gegn ákvæðinu, 32 þingmenn greiddu atkvæði með því og einn sat hjá.
Morgunblaðið/Kristinn ÞINGMENN hlusta á umræður og loka sumir augum til frekari einbeitingar.