SAMKEPPNI í sölu jólabóka er nú í algleymingi og ýmis afsláttartilboð í gangi. Í gær auglýsti Hagkaup í Morgunblaðinu 21 bókartitil á föstu verði eða á 1.990 kr. og mun tilboðið gilda til og með næsta sunnudegi. Tilboð Hagkaups kemur forsvarsmönnum Máls og menningar og Eymundsson verslananna og Pennans ekki á óvart.
Samkeppni harðnar í sölu jólabóka

SAMKEPPNI í sölu jólabóka er nú í algleymingi og ýmis afsláttartilboð í gangi. Í gær auglýsti Hagkaup í Morgunblaðinu 21 bókartitil á föstu verði eða á 1.990 kr. og mun tilboðið gilda til og með næsta sunnudegi.

Tilboð Hagkaups kemur forsvarsmönnum Máls og menningar og Eymundsson verslananna og Pennans ekki á óvart. Segja þeir Hagkaup bjóða mjög svipaðan afslátt af einstökum bókartitlum og fyrir seinustu jól og tilboðið komi fram á sama mánaðardegi og í fyrra. Segjast þeir ekki vera þeirrar skoðunar að verðtilboð Hagkaups muni koma sérstöku róti á jólabókamarkaðinn, eða leiða til verðkapphlaups síðustu dagana fram að jólum.

Örn Kjartansson, sölustjóri í Hagkaup, segir viðbrögð við bókatilboðinu hafa verið mjög góð í gær. "Við gerðum svipað tilboð í fyrra þegar við lækkuðum ákveðna bókartitla niður í eitt verð. Það hefur reynst mjög vel," segir hann. "Þetta eru allt nýjar bækur sem eru vinsælar í dag," segir hann. Örn segir jólabókasöluna síst minni en í fyrra.

Árni Einarsson, verslunarstjóri bókaverslunar Máls og menningar, segist óska fólki til hamingju með gott bókaverð og segir tilboð af þessu tagi einungis leiða til aukinnar sölu bóka hér á landi. "Við bregðumst ekkert sérstaklega við þessu enda er ekki um sambærilega þjónustu að ræða. Við pökkum inn fyrir fólk og þjónustum það á alla lund yfir allt árið og álítum þessu því ekki stefnt gegn okkar viðskiptavinum. Fólk vill yfirleitt fá meiri þjónustu en þarna er í boði en við höfum ekkert út á þetta að setja. Því fleiri bækur sem rata inn á heimili landsmanna er bara til góðs," segir hann.

Harður slagur

Ingimar Jónsson, yfirmaður smásölusviðs Eymundsson og Pennans, tekur í sama streng og Árni. Hann segir ýmis tilboð í gangi á bókamarkaðinum en segir bóksöluna fyrir þessi jól mun meiri en fyrir seinustu jól. "Mér sýnist Hagkaup vera með svipuð tilboð í gangi og í fyrra. Við höfum líka kynnt töluvert af tilboðum og erum ánægðir með okkar stöðu. Þetta hefur verið harður slagur og hann mun halda eitthvað áfram en mér sýnist að allir séu að bjóða eitthvað svipað," segir hann.