FIMMTU "Heimsjólin", jólaskemmtun og hátíðarkvöldverður, verða haldin í Súlnasal Hótel Sögu föstudagskvöldið 19. des. og hefst kl. 19.30. Um leið er um e.k. þakkargjörðarhátíð að ræða fyrir góðan árangur í ferðum ársins 1997, sem er umfangsmesta starfsár Heimsklúbbsins til þessa. Sýndar verða myndir úr heimsreisum og kynntar helstu ferðir næsta árs.
Heimsjólin á Hótel Sögu

FIMMTU "Heimsjólin", jólaskemmtun og hátíðarkvöldverður, verða haldin í Súlnasal Hótel Sögu föstudagskvöldið 19. des. og hefst kl. 19.30. Um leið er um e.k. þakkargjörðarhátíð að ræða fyrir góðan árangur í ferðum ársins 1997, sem er umfangsmesta starfsár Heimsklúbbsins til þessa. Sýndar verða myndir úr heimsreisum og kynntar helstu ferðir næsta árs.

"Heimsjólin verða að þessu sinni með óvenjulegum glæsibrag. Ungir hljóðfæraleikarar í framhaldsnámi erlendis leika saman vinsæla jólatónlist. Sigrún Hjálmtýsdóttir óperusöngkona syngur lög tengd jólum af nýútkomnum metsöludiski sinum, og gestir taka einnig lagið. Meðal myndefnis verður sýnishorn úr kvikmynd Péturs Steingrímssonar af nýafstaðinni Hnattreisu um suðurhvel jarðar með 70 þátttakendum, sem fagnað verður sem heimsmethöfum á ferðalögum, því að enginn hópur hefur áður lagt að baki leið Heimsklúbbsins um Suður-Afríku, Ástralíu, Nýja Sjáland, Tahiti og fleiri eyjar frönsku Pólynesíu og að lokum Santiago de Chile, Buenos Aires, Iguassu fossa og Rio de Janeiro. Verður methöfunum fagnað sérstaklega á Heimsjólum fyrir frammistöðu sína.

Rúsínan í pylsuendanum er nærvera stórsöngvarans Kristjáns Jóhannssonar, en hann og kona hans, Sigurjóna Sverrisdóttir, verða sérstakir heiðursgestir Heimsklúbbsins, og þess minnst, hve oft Kristján hefur glatt félaga Heimsklúbbsins með söng sínum, bæði í Metropolitan í New York og í Arenunni í Verona á Ítalíu," segir í fréttatilkynningu frá Heimsklúbbi Ingólfs.