Stefnt að aukinni sam-
keppni og frjálsræði
LANDBÚNAÐARRÁÐHERRA og
Bændasamtök Íslands hafa náð samkomulagi um nýjan búvörusamning í mjólk, sem mun gilda til ársins 2005. Var samningurinn undirritaður í gær.
Samningurinn felur í sér umtalsverðar breytingar á verðákvörðunarkerfi mjólkur. Kemur ein verðlagsnefnd landbúnaðar í stað fimmmanna- og sexmannanefnda, sem hafa ákveðið verð á mjólk til bóndans og heildsöluverð. Er nýju verðlagsnefndinni ætlað að ákveða svokallað lágmarksverð sem afurðastöðvum ber að greiða að lágmarki fyrir mjólk. Fyrir mitt árið 2001 á svo samkvæmt samningnum að fella niður heildsöluverðsákvörðun mjólkur, og mun verðið eftir það ráðst af samningum á milli einstakra bænda og viðkomandi afurðastöðva. "Það á að leiða til aukinnar samkeppni og sveigjanleika og færa greinina ofurlítið í átt til frjálsræðis," segir Guðmundur Bjarnason landbúnaðarráðherra.
"Stuðningur hins opinbera nánast óbreyttur"
Guðmundur samninginn byggjast á áliti sjömannanefndar frá í nóvember. "Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnugreinina að samningurinn er til langs tíma. Að forminu felur samningurinn í sér að greiðslur hins opinbera verða svipaðar og verið hefur eða um 47% af lágmarksverði. Einnig er gert ráð fyrir óbreyttri upphæð og eiga menn ekki von á að verðlagningin breytist mikið frá því sem verið hefur, að minnsta kosti fyrst um sinn. Stuðningur hins opinbera er því náðast óbreyttur," segir landbúnaðarráðherra.
"Einnig náðist samkomulag um að skoða fyrir mitt næsta ár hvort hægt er að gera breytingu á framleiðslustýringarkerfinu og opna það þannig að auðveldara verði fyrir nýja aðila að komast að og auðvelda tilfærslur á milli manna. Þó er meginlínan sú að kvótinn verði áfram framseljanlegur á frjálsum markaði en stefnt er að því að til verði einn markaður, þannig að kerfið verði gegnsætt og alltaf sýnilegt hvað kann að vera laust á markaðinum. Það var álit samningsaðilanna að það myndi frekar en hitt leiða til lækkunar á verði kvótans, sem hefur á stundum verið mjög hátt, þótt það sé það ekki í augnablikinu," segir Guðmundur.