EVRÓ-Atlantshafssamvinnuráðið, sem er samstarfsvettvangur Atlantshafsbandalagsins (NATO) og samstarfsríkja þess í Evrópu, samþykkti í gær að stofna samráðsskrifstofu þessara ríkja um viðbrögð við náttúruhamförum og að stofna umgjörð um sameiginlegar viðbragðssveitir til að bregðast við náttúruhamförum.
Nýtt almannavarnasamstarf NATO

Reynslan af Sam-

verði hafði áhrif

EVRÓ-Atlantshafssamvinnuráðið, sem er samstarfsvettvangur Atlantshafsbandalagsins (NATO) og samstarfsríkja þess í Evrópu, samþykkti í gær að stofna samráðsskrifstofu þessara ríkja um viðbrögð við náttúruhamförum og að stofna umgjörð um sameiginlegar viðbragðssveitir til að bregðast við náttúruhamförum. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að reynsla ríkja Friðarsamstarfs NATO af almannaæfingunni Samverði '97, sem haldin var hér á landi síðastliðið sumar, hafi átt sinn þátt í að þessi ákvörðun var tekin.

Fundur NATO og samstarfsríkja þess fór fram í Brussel í gær. Samkvæmt samþykkt ráðsins á samráðsskrifstofan að meta hættu og þörf á aðstoð ef náttúruhamfarir dynja yfir. Hinar sameiginlegu viðbragðssveitir, sem eiga að koma til aðstoðar, verða ekki fastaherlið, heldur tilnefna ríkin hersveitir, sem koma saman eftir því sem þörf krefur í hverju tilviki fyrir sig.

Íslendingar á heimavelli

"Ég tel að þetta sé mjög merkileg samþykkt og að hún marki tímamót í sögu bandalagsins," segir Halldór Ásgrímsson. "Sú æfing, sem haldin var hér í sumar, var sú fyrsta sinnar tegundar og vakti mikla athygli og ánægju samstarfsríkjanna. Það er enginn vafi á að meðal annars það hefur haft áhrif á þessa ákvörðun."

Aðspurður hvernig þátttöku Íslands í þessu nýja samstarfi verði háttað, segir Halldór að Íslendingar muni reyna sitt bezta til að taka þátt í því. "Þarna erum við á heimavelli og getum lagt eitthvað af mörkum," segir hann. "Við stefnum að því að hafa hér aðra almannavarnaæfingu innan ekki alltof langs tíma og erum að undirbúa hana. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að taka þátt í þessu, ekki sízt vegna þess að skipulag almannavarna hér vakti mikla athygli ríkja Friðarsamstarfsins. Það er einsdæmi meðal þessara ríkja hversu mikið af sjálfboðaliðum er hér við störf ef náttúruhamfarir verða."