Í DAG, 18. desember, eru nákvæmlega eitt hundrað ár liðin frá fyrstu sýningu Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó, leikhúsinu við Tjörnina. Af því tilefni efnir Leikfélagið til sérstakrar hátíðarsýningar í Iðnó í kvöld og á fjölunum verður Dómínó, leikrit Jökuls Jakobssonar, sem frumsýnt var í byrjun 100 ára afmælisárs Leikfélagsins sjálfs, en það var stofnað 11. janúar 1897.
Hundrað ár frá fyrstu leiksýningunni í IðnóAfmælissýning í leikhúsinu í kvöld
Í DAG, 18. desember, eru nákvæmlega eitt hundrað ár liðin frá fyrstu sýningu Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó, leikhúsinu við Tjörnina.
Af því tilefni efnir Leikfélagið til sérstakrar hátíðarsýningar í Iðnó í kvöld og á fjölunum verður Dómínó, leikrit Jökuls Jakobssonar, sem frumsýnt var í byrjun 100 ára afmælisárs Leikfélagsins sjálfs, en það var stofnað 11. janúar 1897. Með sýningunni í kvöld lýkur jafnframt afmælisári Leikfélagsins sem minnst hefur verið með ýmsum hætti.
"Leikfélag Reykjavíkur byrjar sjónleiki í kvöld kl. 8 í Iðnaðarmannahúsinu." Þannig auglýsti Leikfélagið sína fyrstu leiksýningu í Iðnó þann 18. desember 1897. Fyrsta kvöldið voru leiknir tveir danskir leikþættir, Ferðaævintýrið eftir A.L. Arnesen og Ævintýri í Rósinborgargarði eftir J.L. Heiberg. Leikfélagið og Iðnó urðu fljótt að einu í hugum allra er létu sig leiklist varða og á sviðinu í Iðnó liggja spor allra okkar ástsælustu leikara á þessari öld. Leikfélag Reykjavíkur flutti úr Iðnó í Borgarleikhús 1989, eftir 92 ár í leikhúsinu við Tjörnina.
Fyrsta áfanga endurbóta lokið
Undanfarna mánuði hefur verið unnið stíft að endurbótum á húsinu að innan, en áður var búið að koma húsinu í sitt upprunalega horf að utan.
Að sögn Þórarins Magnússonar formanns endurbyggingarnefndar Iðnó er fyrsta áfanga við endurbyggingu hússins að innan nú lokið. "Sá áfangi miðast við frágang á andyri, áhorfendasal, leiksviði, veitingasal uppi og stiga á milli hæða. Öðrum áfanga á að ljúka þann 1. mars á næsta ári, en þá verður lokið við allt nema risið og þriðja áfanga, sem er endanlegur frágangur á risi, verður væntanlega lokið þann 15. apríl. Fram að þessu hafa allar framkvæmdaáætlanir staðist, bæði hvað varðar tíma og kostnað," sagði Þórarinn.
Mikil vinna hefur verið lögð í að gera Iðnó upp í sitt fyrra, glæsilega horf og sjást þess m.a. glögg merki í báðum sölunum en þar hafa allar skreytingar og listmálun verið gerðar í samræmi við upprunalegar fyrirmyndir.
Í byrjun mars tekur svo nýtt fyrirtæki við rekstri Iðnó og mun reka það sem list- og veitingahús í samræmi við þann samning sem gerður hefur verið við Reykjavíkurborg. Það eru veitingahúsið Við Tjörnina og Leikfélag íslands sem standa sameiginlega að því fyrirtæki sem tekur að sér reksturinn á Iðnó.
ÚR fyrstu sýningu LR í Iðnó. Stefanía Guðmundsdóttir og Þóra Sigurðardóttir í hlutverkum sínum í Ævintýri í Rósinborgargarði , sem var annar einþáttunganna sem leiknir voru fyrsta sýningarkvöld Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó, 18. desember 1897.
Morgunblaðið/Kristinn Dómínó eftir Jökul Jakobsson 18. desember 1997. Hátíðarsýning LR verður í Iðnó í kvöld og lýkur þar með 100 ára afmæli félagsins.Leikarar f.v. eru Hanna María Karlsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Egill Ólafsson og Eggert Þorleifsson