Þrjár leiðir
áhættustýringar
Sjónarhorn Áhættustýring er enn á frumstigi í íslensku
atvinnulífi og sveiflur á gengi og vöxtum virðast enn koma stjórnendum fyrirtækja í opna skjöldu, skrifar Bolli Héðinsson. Áhættustýring verður þó aldrei án kostnaðar.
ÁHÆTTUSTÝRING er enn sem komið er á frumstigi meðal íslenskra fyrirtækja þannig að t.d. sveiflur í gengi og vöxtum koma ráðamönnum fyrirtækja enn í opna skjöldu og er sveiflunum, en ekki skorti á áhættustýringu, kennt um ef illa fer. Nýleg dæmi um þetta eru þegar fyrirtæki í fiskvinnslu, sem selja afurðir sínar í nokkrum Evrópumyntum, áttuðu sig snarlega á því sl. sumar að færri íslenskar krónur fengust fyrir hinar umsömdu myntir heldur en gert hafði verið ráð fyrir.
Sama var uppi á teningnum hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem hafa tekjur sínar af því að flytja ferðamenn frá meginlandinu til Íslands. Ferðaskrifstofurnar höfðu verðlagt og selt ferðir sínar, seinni hluta vetrar og fram á vor, áður en krónan tók að styrkjast. Þegar tekjurnar fyrir hina veittu þjónustu fóru að berast, síðari hluta sumars og fram á haust, þá hafði hinn erlendi gjaldeyrir rýrnað svo um munaði (mælt í íslenskum krónum) og ófyrirséðum gengisbreytingum kennt um hvernig komið var.
Í báðum þessum tilvikum hefði hvor aðilinn um sig, fiskverkandinn og ferðaskrifstofan, getað varið sig fyrir gengishækkun krónunnar með viðeigandi ráðstöfunum, t.d. framvirkri sölu hins erlenda gjaldeyris, um leið og ljóst var hvenær og hvaða fjárhæðir tækju að berast að utan fyrir hina seldu vöru eða þjónustu.
Til varnar gegn gengisáhættu
Þessar einföldu leiðir til áhættustýringar, sem hafa staðið til boða hér á landi allt frá árinu 1992, ná stöðugt meiri útbreiðslu hjá fyrirtækjum í inn- sem útflutningi. Framan af bar mest á því að innflutningsfyrirtæki gerðu slíka samninga vegna landlægrar sannfæringar um að gengi íslensku krónunnar yrði fellt fyrr en síðar.
Framvirkir gjaldeyrissamningar hafa í nokkrum mæli einnig verið notaðir til spákaupmennsku þar sem spákaupmaðurinn álítur sig búa yfir þekkingu (með réttu eða röngu) umfram aðra sem versla á gjaldeyrismarkaði. Í trausti þess kaupir hann eða selur hinn erlenda gjaldeyri framvirkt.
Notagildi framvirkra samninga í reglulegum viðskiptum er aftur á móti fyrst og fremst fólgið í því að létta af inn- og útflytjendum kvöðinni um sjálfstætt mat á gengisþróuninni og nýta sér þess í stað framvirkan samning til áhættustýringar. Lykilatriðið er að með framvirkum samningum er gerlegt að firra sig áhættu með því að verðleggja vöru og þjónustu í samræmi við þekkt gengi gjaldmiðla sem samið hefur verið um fyrirfram.
Fjármálafræðin gera ráð fyrir nokkrum leiðum til áhættustýringar sem beita má út frá mismunandi forsendum. Það sem mestu ræður um hinar mismunandi forsendur er út frá hvaða einingum málin eru vegin og metin. Aðferðunum má til hægðarauka skipta í þrennt eftir því hversu víðtæk áhættustýringin er. Aðferðirnar eru eftirfarandi, raðað frá "micro" til "macro":
I. Innan fyrirtækjanna sjálfra þar sem áhættur í rekstursreikningi eru látnar jafna hvor aðra út, ýmist með beinum hætti eða notkun afleiða (derivatives).
II. Samvali atvinnugreina (framleiddra afurða og/eða mismunandi framleiðslugreina) sem fyrirtækið stundar. T.d. útflutnings og innflutnings innan sama fyritækis.
III. Samvali eignarhluta (portfolio/hlutabréfasafns) eigendanna. Eigendurnir velja sér hlutabréf m.t.t. þeirrar áhættu sem þeir vilja hætta fjármunum sínum til og láta eignarhlutana vega upp áhættu hver annars.
Enn sem komið er eru það aðeins fáein stórfyrirtæki og nokkrir aðilar aðrir sem beitt hafa þessum aðferðum hér á landi með skipulegum hætti, en fleiri fyrirtæki hafa þó beitt þeim ómeðvitað. Á það einkum við um leið II. Verður hér fjallað um þessar þrjár leiðir en fyrstu tvær leiðirnar eiga erindi til ráðamanna í fyrirtækjum en sú þriðja til eigendanna sjálfra hvort heldur þeir eru einstaklingar eða svokallaðir stofnanafjárfestar.
I. Aðferðir
Einföldustu aðferðir, sem fyrirtæki geta beitt til áhættustýringar, er samstilling tekna og gjalda í sömu gjaldmiðlum. Slíkri samstillingu verður oft ekki svo auðveldlega við komið nema með notkun framvirkra gjaldmiðlasamninga. Dæmi um slíkt er þegar innflytjandi fær vöru í hendur en ber að standa skil á greiðslu fyrir hana t.d. fimm mánuðum síðar. Hann tryggir sér strax það verð sem honum ber að greiða fyrir erlenda gjaldeyrinn þegar hann þarf á honum að halda. Þetta gerir honum kleift að verðleggja vöruna strax og veita þriggja mánaða greiðslufrest en taka samt enga gengisáhættu. Samninginn gerir hann við viðskiptabanka sinn og þarf viðskiptamaðurinn ekki að inna neina greiðslu af hendi fyrr en kemur að afhendingu hins erlenda gjaldeyris.
En hvernig ver bankinn sig gengishreyfingunum? Bankinn er stöðugt að taka á sig eða stofna til erlendra skuldbindinga með t.d. veittum ábyrgðum, erlendum lánum, móttöku innleggja á erlenda gjaldeyrisreikninga o.s.frv. Bankinn þarf að stýra þessari áhættu ýmist til lágmörkunar áhættu eða til hámarkshagnaðar í samræmi við mótaða stefnu innan bankans. Þannig er gjaldeyrissala sem fer fram með framvirkum samningi ekki á nokkurn máta frábrugðin annarri gjaldeyrissölu, þó svo að eiginleg afhending gjaldeyrisins eigi sér ekki stað fyrr en síðar. Það er síðan verkefni þeirra sem stýra gjaldeyrisjöfnuði bankans að bregðast við þessari gengisáhættu með þeim aðferðum sem þeim eru tiltækar.
II. Skipulag framleiðslunnar
Einfaldasta dæmið í þessum flokki er eins og áður sagði fyrirtæki sem stundar hvorttveggja í senn útflutning og innflutning í sama gjaldmiðli þannig að gengisbreytingar þess gjaldmiðils skilja fyrirtækið eftir jafnsett hvort heldur verðmæti þess gjaldmiðils hækkar eða lækkar gagnvart íslenskri krónu.
Annað fyrirkomulag hafa fyrirtæki í sjávarútvegi verið að uppgötva "upp á eigin spýtur" með því að láta greinar sjávarútvegsins, sem framleiða fyrir mismunandi markaði, vega upp rekstraráhættu hver annarrar. Fyrir aðeins fáum árum hefðu sjávarútvegsfyrirtæki gert þetta með því að stofna sjálf, í eigin nafni, til rekstrar til að vega upp áhættu í þeim rekstri sem fyrir var. Nú hafa fyrirtækin áttað sig á því að hægara kann að vera að kaupa starfandi fyrirtæki, jafnvel þó í öðrum landsfjórðungi sé, eða jafnvel að einfaldast kann að vera að rugla saman reytum fyrirtækjanna og skiptast á hlutabréfum við fyrirtæki sem þegar eru í þeim rekstri sem vilji er til að koma á fót. Þannig næst fjölbreyttari framleiðsla fyrir mismunandi markaði sem um leið vegur upp áhættu hver annars.
Fjárfestingar íslenskra fyrirtækja í tilteknum erlendum fyrirtækjum geta einnig talist í þessum hópi t.d. fjárfestingar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í sjávarútvegi erlendis.
III. Gagnverkandi hlutabréfasafn
Ein leið til áhættudreifingar er einfaldlega sú að eiga hlutabréf í fyrirtækjum í mismunandi atvinnugreinum, á mismunandi landsvæðum, í mismunandi þjóðlöndum og mismunandi heimsálfum. Þannig má ná hæfilegri áhættudreifingu innan hlutabréfasafns eigandans án þess að nokkru sé til kostað við áhættudreifinguna innan fyrirtækjanna sjálfra.
Ljóst er að áhættustýring er aldrei án kostnaðar og því kann fjárfestir sem þannig er ástatt fyrir að kjósa fremur að fyrirtækin sem hann kaupir dreifi ekki áhættunni með tilheyrandi kostnaði heldur taki hann áhættudreifinguna alfarið á sig sjálfur og dreifi henni með samvali hlutabréfa. Slíkt er aðeins mögulegt með langtímafjárfestingu í huga því sveiflurnar sem vega þarf upp milli einstakra hlutabréfa getur þurft að telja í mörgum árum.
Fjárfestingar erlendis verður einnig að telja í þessum hópi þar sem fjárfestar eru að horfa til hagsveiflna sem hegða sér mismunandi eftir löndum og landsvæðum. Fyrir fáeinum mánuðum þótti einstaklega eftirsóknarvert að fjárfesta í Austur-Asíu. Það er að vísu enn eftirsóknarvert að fjárfesta í mörgum löndum Asíu en nauðsynlegt að hafa í huga þá dýfu sem hagsveiflan þar hefur tekið og ekki er enn útséð um hvernig þjóðunum þar eystra reiðir af.
Höfundur er hagfræðingur og starfar að erlendum viðskiptum hjá Búnaðarbanka Íslands.
Bolli Héðinsson