ÍKVERJI hefur nú um skeið verið að velta fyrir sér punktasöfnunaráráttu landsmanna. Fyrirtæki virðast hafa komið því inn hjá mörgum landsmönnum að með kortanotkun verði til verðmæti af sjálfu sér og með því að láta strauja kortið sitt framleiði þeir punkta sem þeir geti breytt í utanlandsferð,
ÍKVERJI hefur nú um skeið
verið að velta fyrir sér punktasöfnunaráráttu landsmanna. Fyrirtæki virðast hafa komið því inn hjá mörgum landsmönnum að með kortanotkun verði til verðmæti af sjálfu sér og með því að láta strauja kortið sitt framleiði þeir punkta sem þeir geti breytt í utanlandsferð, málsverð eða önnur verðmæti? Það væri heldur betur búbót fyrir íslenska þjóðarbúið ef þessu væri svo varið, því að þá væri eflaust fundinn vænlegur útflutningsiðnaður, svo duglegir hafa Íslendingar verið við punktasöfnun. Enginn vill verða útundan í kapphlaupinu um punktasöfnun landsmanna. Visa Ísland birti á dögunum auglýsingu þar sem þeir telja upp fjölda fyrirtækja sem veita afslátt gegn framvísun fríðindakorts Visa. Þessi auglýsing ku hafa verið svar við Sérkorti Stöðvar 2 og hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu vegna yfirlýsingar forstjóra fyrirtækisins um að þessu yrði svarað með kröftugu útspili í desember. Á gæði útspilsins verður ekki lagður dómur hér.ÍKVERJI er þeirrar skoðunar að kortastraujun sé ekki og verði ekki frumframleiðslugrein og hafi því síður burði til að verða útflutningsiðnaður. Einhver einhvers staðar hljóti að borga brúsann. Það er ekki reynsla Víkverja að kaupmenn, kreditkortafyrirtæki, sjónvarpsstöðvar eða aðrir í viðskiptalífinu bjóði sig fram til að greiða utanlandsferðir, málsverði eða annað fyrir viðskiptamenn sína án þess að fá eitthvað í staðinn. Víkverji telur að það hljóti að vera við neytendurnir sem borgum á endanum fyrir punktana sem við teljum okkur vera að framleiða, séum í raun að taka úr öðrum vasa okkar til að troða hinn út. Það hefði því verið sterkari leikur fyrir Visa Ísland að setja punktinn yfir i-ið og ganga í lið með okkur neytendunum og taka ekki þátt í þessari hringavitleysu við punktasöfnun og afsláttarfríðindi. Það eru hvort eð er flest stærri fyrirtæki á landinu þegar búin að gera samninga við Fríkortið eða sérkort Stöðvar 2 og Visa Ísland þar með búið að missa af lestinni. Með þessum orðum vill Víkverji ekki gera lítið úr Hattabúð Reykjavíkur, Veitingahúsinu Duggunni á Þorlákshöfn eða öðrum þeim fyrirtækjum sem auglýstu í vikunni afsláttarkjör við notkun hins "nýja" fríðindakorts VISA.
ESSI blinda tiltrú landans á punktasöfnun ætti svo sem ekki að koma Víkverja á óvart í ljósi reynslunnar. Það er ekki svo langt síðan peningakeðjubréf gengu kaupum og sölum um allt samfélagið. Annar hver maður breyttist þá í smjörgreiddan sölumann sem reyndi með fortölum og smjaðri að selja hinum peningabréf og allir áttu þá að græða. Tilfellið var hins vegar að allir sem tóku þátt í þeim bréfum borguðu en aðeins fáir græddu á endanum. Á sama hátt álítur Víkverji að landinn hafi látið selja sér þá vitleysu að maður græði á að safna punktum. Á sama hátt og með peningakeðjubréfin borga allir sem taka þátt en aðeins fáir, ef einhverjir, græða. Á vissan hátt er punktaáráttan verri heldur en peningakeðjubréfin sem bitnuðu bara á þeim sem tóku þátt. Punktakortavitleysan bitnar á öllum í formi hækkaðs verðlags.
LLT samfélagið virðist vera ofurselt og samdauna punktasúpunni. Maður má ekki einu sinni í sakleysi sínu verða sér úti um yfirdráttarheimild í bankanum sínum án þess að fá sjálfkrafa vildarpunkta hjá flugfélagi sem maður hefur svo kannski engan áhuga á að eiga viðskipti við. Engin leið er að spá fyrir um hvað markaðsmönnum punktasúpunnar dettur í hug næst en Víkverji telur mál að linni. Ekki fleiri fríðinda-, tryggðar-, sérkjara-, frí- eða sérkort, ekki meiri punktasúpu. Víkverji vill bara borga fyrir þá vöru og þjónustu sem hann notar, ekki fyrir utanlandsferðir eða málsverði "punktverjanna".