Jólamarkaður hand-
verksfólks í Eyjum
Vestmannaeyjum - Jólamarkaður
handverksfólks í Vestmannaeyjum hefur verið starfræktur í Alþýðuhúsinu í Eyjum undanfarnar helgar. Þær Eva Káradóttir og Guðrún Kristín Sigurgeirsdóttir höfðu frumkvæði að því að markaðnum var komið á fót.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðrún Kristín að tilgangurinn með markaðnum hafi verið tvíþættur. Annars vegar hefðu þær viljað koma handverksfólki á framfæri, en þær hafi haft vitneskju um að margt fólk í Eyjum væri að vinna að ýmiskonar handverki án þess að hafa komið því í sölu. Hins vegar hefðu þær viljað efla jólastemmninguna í bænum og hvetja fólk til að versla í heimabyggðinni.
Á handverksmarkaðnum eru tólf sölupláss þar sem fólk sýnir og selur mismunandi handverk sitt. Auk þess hafa verið ýmsar uppákomur í Alþýðuhúsinu í tengslum við markaðinn. Kaffihús, í umsjá íþróttahreyfingarinnar, er rekið á staðnum og þar er einnig barnahorn fullt af leikföngum og í barnahorninu eru sögustundir og einnig er spilað og sungið með börnunum þar. Í Alþýðuhúsinu hafa síðan verið ýmsar uppákomur, svo sem tískusýningar, harmonikkuleikur, kórsöngur og ýmislegt fleira.
Viðtökur framar öllum vonum
Guðrún Kristín sagði að viðtökur við handverksmarkaðnum hefðu verið framar öllum vonum. Fjölmargt fólk hefði lagt leið sína í Alþýðuhúsið, þrátt fyrir að unnið hefði verið í frystihúsunum á fullu þær helgar sem markaðurinn hefur verið starfræktur. Hún sagði að hugsun þeirra sem stóðu að því að koma markaðnum á fót hefði verið að skapa skemmtilega og þægilega jólastemmningu í húsinu og sagði Guðrún að það hefði svo sannarlega tekist og einnig hefði sala hjá handverksfólkinu verið mjög góð.
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
MÆÐGURNAR Íris Sæmundsdóttir og Helga Tómasdóttir við handverk sitt