Leikið með orð
BÆKUR
Gamanmál
ORÐENGILL
eftir Sverri Stromsker. 176 bls.
Fjölvaútgáfan. Prentun: Steinholt hf. Reykjavík, 1997. Verð 2.680 kr.
SVERRIR Stormsker er tónlistamaður. Hann er ennfremur grínari. Kannski er hann líka uppreisnarmaður. Í bók þessari leggur hann til atlögu við málið, ranghvolfir merkingu, sker í sundur og skeytir saman orð, treður upp á þau nýju inntaki, læðir ísmeygilegum hugrenningum inn í blásaklausar samsetningar, sýnir lögboðinni stafsetningu strákslega lítilsvirðingu og lætur allt flakka, jafnvel óprenthæfan munnsöfnuð. Ljótt er atarna!
Orðið húsbréf skýrir hann til að mynda sem klósettpappír og tissjú . Gallabuxnatískan heitir á máli hans skálmöld , herðubreið útleggst tröllvaxinn kvenmaður og keppendur þýðir hjá honum sama sem feitabollur . Sú virðulega stofnun, hæstiréttur, fær hins vegar nýmekringuna dýrasti réttur veitingastaðar og hananú.
Á titilsíðu stendur að þetta sé nútímaorðabók. Og víst er öllu þessu raðað í stafrófsröð þannig að Orðengill lítur reyndar út eins og hver önnur alvöruorðabók. En þarna er ekki aðeins ríflegur skammtur af útúrsnúningum og orðhengishætti. Mikið er og um blautleg hugmyndatengsl sem fáum blöskrar víst nú orðið. Margt er þarna sniðugt, sumt meira að segja bráðsniðugt; annað of langsótt til að vekja kátínu.
Sverrir Stormsker varð ekki fyrstur til að setja saman orðaleiki af þessu tagi. Sjálfsagt er þetta jafngamalt málinu. Ljóðskáld og hagyrðingar hafa stundum leitast við að brjóta upp málið með þessum hætti. Og hugmyndaríkir menn krydda daglegt tal sitt oft með svipuðu móti. Hins vegar mun víst enginn hafa lagt í það áður að semja heila orðabók í þessa veru. Sverrrir er þá brautryðjandi að því leytinu. Hverjir munu þá vera móttækilegir fyrir þessa tvíræðu og stundum margræðu fyndni? Þeirri spurningu getur undirritaður engan veginn svarað. Unglingar geta ærslast með orð eins og hvað annað. En höfundurinn er enginn unglingur. Má því fremur ætla að hann skírskoti fremur til jafnaldra. Kannski er þetta hin dæmigerða íslenska fyndni dagsins í dag. Hver veit?
Erlendur Jónsson