FYRIR tíu árum gerði bandaríska símafélagið AT&T samning við Microsoft til að tryggja að hægt yrði að keyra Microsoft XENIX- hugbúnað á 80286/80386 PC-samhæfðum tölvum í UNIX frá AT&T. Síðar seldi AT&T Novell UNIX- leyfið og Novell seldi SCO, en alltaf fylgdi böggullinn skammrifinu; samningurinn var í fullu gildi og SCO þurfti að bæta inn í allar útgáfur kóða sem enginn notaði,
SCO losnar undan
kvöð Microsoft
FYRIR tíu árum gerði bandaríska símafélagið AT&T samning við Microsoft til að tryggja að hægt yrði að keyra Microsoft XENIX- hugbúnað á 80286/80386 PC-samhæfðum tölvum í UNIX frá AT&T. Síðar seldi AT&T Novell UNIX- leyfið og Novell seldi SCO, en alltaf fylgdi böggullinn skammrifinu; samningurinn var í fullu gildi og SCO þurfti að bæta inn í allar útgáfur kóða sem enginn notaði, til að tryggja að nýjar útgáfur væru samhæfðar gerð Microsoft af UNIX, XENIX, sem löngu er hætt að nota, og greiða Microsoft leyfisgjald fyrir hvert eintak sem það seldi.
SCO óskaði eftir því við Microsoft að losna undan kvöðinni snemma á síðasta ári, en Microsoft hafnaði bóninni. Það var ekki fyrr en SCO fékk Evrópuráðið í lið með sér að Microsoft féllst á að leysa SCO undan samningnum, enda töldu lögfræðingar Evrópuráðsins að Microsoft væri að beita samkeppnishindrunum til að styrkja stöðu NT á kostnað SCO UNIX. Samkvæmt fréttum á heimasíðu SCO sparar SCO sér á fimmtu milljón dala á ári, rúmar 300 milljónir króna, í beinar greiðslur til Microsoft, en einnig verður þróunarferli SCO UNIX mun einfaldara og hraðvirkara, þegar ekki þarf að bæta úreltum kóða inn í hverja útgáfu. Að sögn talsmanna Microsoft þarf SCO enn að greiða fyrir þann XENIX-kóða sem það notar í Unix, en frammámenn SCO segja enga hættu á að fyrirtækið noti úreltan kóða ótilneytt.