Valborg Elísabet Hermannsdóttir
Hún var ljóshærð og lagleg, kát
og skemmtileg, vel menntuð og víðförul. Hún var móðursystir mín og þegar ég var barn og unglingur var hún mér fyrirmynd og vakti aðdáun mína. Hún ólst upp í stórum systkinahópi og mér er sagt, að hún hafi verið augasteinn föður síns. Góðar námsgáfur hennar komu fljótt í ljós, einkum miklir tungumálahæfileikar. Í þá daga var ekki algengt, að stúlkur gengju menntaveginn, en það varð þó hlutskipti Völlu sem betur fer, vegna þess að til þess stóð hugur hennar.
Lífshlaup Völlu var á margan hátt mjög óvenjulegt.
Ég man fyrst eftir henni með sítt ljóst hár. Hún var í fallegum fötum og var á förum til Kaupmannahafnar til framhaldsnáms í lyfjafræði. Þegar hún kom heim í frí kom hún með útlendar, nýstárlegar gjafir handa systkinabörnum sínum og hafði frá mörgu að segja. Hún vann svo nokkur ár í Laugavegsapóteki að námi loknu og það var mikill fengur að fá að fara sendiferð í apótekið og láta Völlu afgreiða sig. Það var svo skemmtilegt, að hún var nú á Íslandi.
Valla var heitbundin dönskum lyfjafræðingi, Kurt Stenager, og þau giftu sig 1955 og fóru til Austurlanda fjær, þar sem Kurt var við störf í 14 ár áður en þau fluttust aftur heim til Danmerkur. Þau ferðuðust vítt um heiminn meðan þau voru í Austurlöndum og komu líka oft til Íslands í frí. Þau sögðu svo skemmtilega frá lífi sínu í Bangkok og Djakarta, sýndu myndir og færðu okkur framandlegar gjafir og það var hátíð í bæ.
Völlu og Kurt varð ekki barna auðið, en þau tóku tvo kjörsyni. Þeir eru danskir að ætterni og Valla sótti þá til Danmerkur og flutti þá til heimilis síns í Bangkok. Nú er þessu yfirleitt öfugt farið og fólk sækir kjörbörn til Austurlanda.
Nokkru eftir að þau fluttust til Danmerkur fór að halla undan og endaði með því, að þau hjónin skildu. Heilsu Völlu hrakaði líka á ýmsan hátt. Endurteknar aðgerðir á hnjálið urðu til þess, að hann varð ónýtur og hún var mestmegnis í hjólastól seinustu árin. Hún fluttist heim til Íslands árið 1991 eftir þessa löngu útivist, en synir hennar búa áfram í Danmörku.
Valla fékk dvalarstað á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund. Hún naut þess að heyra íslensku í kringum sig og fá íslenskan mat og sjá íslensku fjöllin. Þótt hún væri í hjólastól heimsótti hún mig til Akureyrar og við fórum bæði í Vaglaskóg og Mývatnssveit. Í ágúst 1996 fór hún alein til Kaupmannahafnar og heimsótti syni sína og það var mikið afrek. Hún var mikil félagsvera og naut þess til dæmis að fara á tælenskan matsölustað í Reykjavík og tala tælensku við starfsfólkið. Hún elskaði skæra liti og glaða tónlist og á góðum stundum gat ekki skemmtilegri manneskju en hana. Hún hafði svo gaman af því að koma í Perluna og horfa á fjallahringinn. Hún gat þess líka við mig, að það væri yndislegt útsýni úr Grillinu og gaman að koma þar. Á fögru maíkvöldi fórum við tvær í Grillið. Við vorum báðar í okkar besta pússi og við nutum kvöldsins. Þótt Valla væri komin yfir sjötugt og væri í hjólastól vantaði ekkert upp á hennar eðlislæga sjarma. Þjónarnir snerust í kringum hana eins og skopparakringlur og hún naut augnabliksins.
Þannig ætla ég að muna hana glaða og hamingjusama. Blessuð sé minning Valborgar Hermannsdóttur.
Ragnheiður Hansdóttir.