Halldór Kristinn Jónsson Elsku afi, þá er komið að kveðjustundinni sem við vissum að væri ekki langt undan eftir þín löngu og ströngu veikindi. Það er okkar vissa að þér líði vel á þeim stað þar sem þú ert núna og það áttu svo sannarlega skilið. Við eigum eftir að sakna þín afi og munum minnast þín sem mjög vandaðs og handlagins manns. Gaman þótti okkur að koma í bílskúrinn og sjá það sem þú varst að sýsla við hverju sinni og þá var nú blái Opelinn yfirleitt ekki langt undan. Mest þótti okkur gaman að sjá hversu bílnum var vel við haldið og var hann alltaf eins og nýr. Það var líka óskrifuð regla að ef nýr bíll kom í fjölskylduna þá var farið strax með hann til þín og þú athugaðir hvort hann væri ekki í góðu lagi. Með þessum fáu orðum viljum við kveðja þig afi okkar og munum við geymar minningar um þig í hjörtum okkar. Elsku amma Lína, Kolla og Guðný, megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Hugur okkar er hjá ykkur.

Sá sem eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson) Inga Dóra, Elías, Jón Þór, Hafdís, Ingunn og Jónas.