Halldór Kristinn Jónsson
Í dag kveð ég tengdaföður minn
Halldór Kristin Jónsson, eða Dóra eins og hann var gjarnan kallaður, sem að lokinni langri og stundum stormasamri baráttu hefur lagt í hinstu ferð. Mér var ekki alveg rótt þegar ég í fyrsta skipti fylgdi minni tilvonandi eiginkonu í sunnudagskaffi til Dóra og hans konu Línu, en sá óróleiki hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar hann tók þétt í hönd mína og bauð mig velkominn í Skjólið (Sörlaskjól 68). Við Dóri áttum ágætlega skap saman og gátum rætt dægurmálin fram og til baka, viðrað ólíkar skoðanir og skilið sáttir þó okkur greindi á. Umfram allt annað fann ég frá fyrstu kynnum fyrir hlýju viðmóti, ákveðni í skoðunum og festu. Skapgerð sem var mótuð af erfiðri lífsbaráttu í bernsku, mikilli vinnu og miklu mótlæti.
Uppvaxtarár Halldórs liðu suður á Stafnnesi þar sem hann lagði einstæðri móður sinni lið um leið og hann gat vettlingi valdið. Fyrir honum lá að fara til sjós og tengdist hann sjósókn órjúfandi böndum, fyrst sem háseti og síðar bátsmaður á síðutogurum og seinni árin sem afgreiðslumaður við Reykjavíkurhöfn. Öll sín störf vann hann af dugnaði og eljusemi og dró ekki af sér, til marks um það sleppti hann ekki úr siglingu með afla til Englands öll stríðsárin. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Halldór, einkasonur og eiginkona hans féllu fyrir krabbameini með aðeins tveggja ára millibili og móðir hans lést einnig um svipað leyti. Það var hans gæfa að kynnast síðar eftirlifandi eiginkonu sinni Gíslínu Þóru Jónsdóttur sem einnig hafði misst maka sinn.
Halldór var sífellt að, dyttaði að húsinu og ræktaði garðinn af kostgæfni og þótti undrun sæta hve vel hann náði gróðri á strik við erfið skilyrði í særoki og seltu við Sörlaskjól. Sumarhús smíðaði hann í einingum í bílskúrnum við Sörlaskjólið og reisti síðar í sumarhúsabyggð við Þingvallavatn. Þar undi Dóri hag sínum vel, hlúði að gróðrinum og dyttaði að húsinu eftir því sem þurfti, sem fyrr báru öll verk hans vitni vandvirkni og natni. Dóri og Lína áttu góð ár saman, ár sem einkenndust af samstöðu og gagnkvæmri virðingu. Snemma árs 1990 varð Dóri fyrir slysi og í framhaldi af því ágerðust einkenni Alzheimer sjúkdómsins, sem áður hafði orðið vart, svo mjög að að lokinni sjúkrahúsvist var honum fundið pláss á hjúkrunarheimili austur að Kumbaravogi. Í apríl 1993 flutti hann á Skjól við Kleppsveg þar sem hann bjó til dauðadags.
Að lokinni vegferð vil ég þakka honum samfylgdina og óska honum góðrar heimkomu til löngu horfinna ástvina. Aðstandendum öllum votta ég samúð mína.
Guðbrandur Jónasson.