Anna Soffía Steindórsdóttir
Anna Soffía Steindórsdóttir,
Snekkjuvogi 9 hér í borg, andaðist í Sjúkrahúsi Reykjavíkur í Fossvogi þann 10. desember sl. tæpra 75 ára að aldri. Hún hafði undanfarna mánuði verið haldin heilsumeini, sem fór sífellt versnandi, unz yfir lauk. Við þau endalok vil ég með fáeinum orðum minnast þeirrar mætu konu.
Svo sem hér að framan greinir var hún dóttir Steindórs Gunnlaugssonar lögfræðings og konu hans Bryndísar Pálmadóttur. Hún átti því til trausts og góðs uppruna að telja í báðar ættir. Hún ólst upp á heimili foreldra sinna til fullorðins aldurs. Ég kynntist henni og fólki hennar á námsárum mínum, en þær Anna Soffía og kona mín voru systradætur. Var því mikil og einlæg vinátta milli fjölskyldu Önnu Soffíu og fjölskyldu konu minnar og samgangur mikill milli þessa fólks. Frá þeim árum á ég góðar minningar af þeim kynnum, eigi hvað sízt af mikilli gestrisni og alúð, sem ég átti að fagna hjá þessu góða fólki.
Anna Soffía gekk í Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan brottfararprófi. Að námi sínu loknu gerðist hún aðstoðarmaður Jakobs Gíslasonar verkfræðings, sem þá hafði með höndum skipulagningu rafmagnseftirlits og annarra raforkumála þjóðarinnar. Þar reyndist hún dugandi starfsmaður. Þessum störfum gegndi hún þar til nokkrum árum eftir að hún gifti sig.
En hinn 26. júní 1948 giftist hún Páli Sigurðssyni verkfræðingi. Páll var hæfileikamaður og glæsimenni. Hjónaband þeirra var ástríkt og farsælt. Þau hjón eignuðust tvo syni, sem hér að framan eru greindir, mestu myndarmenn, sem eru góðum hæfileikum gæddir. Var greinilega mikil ánægja og hamingja ungu hjónanna, eftir að þau eignuðust þessa syni sína. Þau komu sér upp og eignuðust stórt og glæsilegt íbúðarhús, þar sem þau bjuggu um sig fagurlega og á smekklegan hátt. Var mjög ánægjulegt að heimsækja þau þar, njóta gestrisni og eiga með þeim ánægjustundir. En skjótt skipast veður í lofti og sorglega atburði getur borið að höndum. En þann 16. desember 1966 varð eiginmaðurinn Páll Sigurðsson bráðkvaddur. Það þarf ekki mörg orð til að skýra það hvílíkt feikna áfall dundi þá þar með yfir konuna ungu og synina þeirra ungu, að missa með svo sviplegum hætti góðan og ástríkan eiginmann og föður í blóma lífsins.
En Anna Soffía lét ekki hugfallast, heldur brást hún skynsamlega og af myndugleika við þeim mikla vanda, sem við blasti við fráfall Páls. Hún hóf brátt störf hjá Domus Medica og varð þar skrifstofustjóri. Þau margvíslegu störf leysti hún af hendi með dugnaði og vandvirkni. Hafði hún þau störf á hendi til loka leyfilegs starfsaldurs. Hún bar ætíð heill og heiður sona sinna fyrir brjósti. Henni tókst að láta þá njóta góðrar skólagöngu og menntunar, enda hafa þeir bræður kunnað sem bezt má vera að meta og þakka sinni góðu móður fyrir dýrmæta umönnun hennar þeim til handa. Þeir hafa líka lagt sig fram um að styðja og styrkja móður sína og gera henni til hæfis sem bezt mátti vera.
Svo sem um er getið hér að framan varð Anna Soffía þeirrar ánægju aðnjótandi að eignast tvær fallegar og efnilegar sonardætur, sem bera nöfnin Anna Kristín og Bryndís Sæunn Sigríður. Þessar litlu telpur voru henni til ómetanlegrar gleði síðustu æviár hennar.
Anna Soffía var fríðleikskona, vel viti borin, og að öllu vel á sig komin. Hún var alla tíð einstaklega prúð og háttvís í allri framkomu, glaðleg og hlýleg í viðmóti og hafði jafnframt til að bera tilhlýðilega virðingu.
Við hjón vottum öllum aðstandendum innilega samúð.
Ég og kona mín Sesselía Helga söknum Önnu Soffíu sárt.
Jóhann Salberg Guðmundsson.